Fara í efni

Minningartónleikar um Sigríði og Ragnar H. Ragnar

Fréttir
Ísafjarðarkirkja
Ísafjarðarkirkja

Franskur fiðlusnillingur, Gilles Apap, er kominn til Ísafjarðar ásamt fríðu föruneyti. Kemur hann fram á árlegum minningartónleikum um hjónin Sigríði og Ragnar H. Ragnar, en þau stýrðu Tónlistarskóla Ísafjarðar um áratuga skeið og undir stjórn þeirra varð Tónlistarskóli Ísafjarðar öflug menningarstofnun. Balzamersveitin Bardukha og Hjörleifur Valsson koma einnig fram á tónleikunum, sem og Íslenska kammersveitin sem er skipuð 15 hljóðfæraleikurum.

Tónleikarnir verða í Ísafjarðarkirkju og hefjast kl. 20:00, miðvikudaginn 3. október. Fyrir hlé verða flutt verk eftir Bartók og Bach, auk fjölbreytts úrvals þjóðlaga. Eftir hlé leika Gilles Apap og kammersveitin fiðlukonsert Mozarts nr. 4 í D-dúr.

Gilles Apap er þrautreyndur leiðbeinandi og kennari og mun hann halda kynningu fyrir nemendur og kennara Tónlistarskóla Ísafjarðar í Hömrum á morgun kl. 17:30. Þá mun hann einnig vinna með fyrsta árs tónlistarnemum Listaháskóla Íslands sem eru í sinni árlegu Ísafjarðarheimsókn dagana 1.-5. október.

Þess má geta að í för með Apap og félögum eru fiðlusmiðurinn Christophe Landon sem er í hópi bestu fiðlusmiða heims og kvikmyndagerðarmaðurinn Dagur Kári Pétursson sem ætlar að gera heimildamynd um ferð snillingsins hingað til lands.