Fara í efni

Mótmæli við hugmyndum um frystingu framlaga Jöfnunarsjóðs

Fréttir
Frá Reykhólum
Frá Reykhólum

Stjórn Vestfjarðastofu  harmar hugmyndir fjármála- og efnahagsráðherra um frystingu framlaga ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árin 2020 og 2021. Áhrifin munu koma mest fram á útgjaldajöfnunarframlögum, framlögum sem er ætlað að jafna aðgengi íbúa að lögboðinni þjónustu óháð búsetu. Hugmyndin gengur einnig gegn markmiðum stjórnvalda í Byggðaáætlunar 2018-2023 um jafnan aðgang íbúa að þjónustu.

Áhrifin munu síðan leggjast mjög mismunandi á landshluta og einstaka sveitarfélög og auka þannig enn á aðstöðumun á milli sveitarfélaga í landinu. Þar koma verst út þau sveitarfélög sem eru að sinna dreifbýlum og fámennum svæðum og eða með marga byggðakjarna, en þessi sveitarfélög reiða sig mjög á framlög Jöfnunarsjóðs til að veita þjónustu.

Fram kemur í greiningu í minnisblaði Sambands Íslenskra Sveitarfélaga frá 14. mars sl., að íbúar á Vestfjörðum munu bera hlutfallslega mestu skerðinguna. Þannig skerðast fjárframlög Jöfnunarsjóðs hundrað sinnum meira á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu.  Því mótmælir stjórn Vestfjarðastofu framkomnum hugmyndum og beinir til fjármála- og efnahagsráðherra að leita annarra leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Nánar um afstöðu stjórnar Vestfjarðastofu má finna hér.