Fara í efni

MV í Japan - ferðasaga Sölva

Fréttir

Dagana 26. og 27. febrúar var haldin Skandinavíu-vinnustofa ferðarisans Kuoni Tumlare í Osaka og Tókýó. Markmið vinnustofunnar var að tengja saman ferðaskipuleggjendur og búa til nýjar vörur fyrir Austur-Asíu markað. Kaupendurnir voru ferðaskipuleggjendur frá Japan, Tævan og Kóreu, á meðan seljendur komu frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Alls voru um 200 kaupendur sem sóttu vinnustofuna til að kynna sér vöruframboðið, og þar af átti ég fund með 20 áhugasömum ferðaskipuleggjendum. Fundirnir gengu vonum framar og nú þegar þessi orð eru skrifuð veit ég af fimm ferðum sem eru á teikniborðinu og gætu komið til framkvæmda frá næsta hausti og út árið 2026.

Langt en þægilegt ferðalag

Ferðalagið til Japan tók drjúgan tíma, en alls tók það 28 klukkustundir að fara frá Keflavíkurflugvelli til Osaka og innihélt ferðin þrjú flug. Finnair reyndist vera með mjög hentugar tengingar frá Íslandi til Japans í gegnum Helsinki, sem gerði ferðalagið nokkuð þægilegt þrátt fyrir lengd þess.

Ég var heppinn með veður alla daga nema þann síðasta, þar sem það snjóaði á mig í Tókýó. Mér þótti það eiginlega viðeigandi, eins og veðrið væri að undirbúa mig fyrir heimkomuna í vestfirska veturinn.

Maturinn og heimafólkið frábært

Ég hafði ekki mikinn tíma til að upplifa Osaka en Tókýó heillaði mig upp úr skónum. Þar dvaldi ég þó aðeins í miðborginni, en þessi mikla borg er heill heimur út af fyrir sig. Það sem stóð upp úr var hversu almennilegt, kurteist og hjálpsamt fólkið var. Maturinn var stórkostlegur og það var gaman að upplifa andstæðuna milli þess að vera lítill Vestfirðingur frá fámennum stað og svo skyndilega vera í stærstu höfuðborg heimsins.

Maturinn í Japan yfir höfuð olli ekki vonbrigðum – sama hvort um var að ræða sjávarfang eða landbúnaðarvörur. Ég smakkaði allt milli himins og jarðar; loðnu,

 djúpsteikta skötu, laxahrogn og wagyu-kjöt og var hver einasta máltíð upplifun út af fyrir sig.

Nábrækurnar nutu vinsælda

Vinnustofurnar í bæði Osaka og Tókýó voru frábærar. Skipuleggjendur Kuoni Tumlare lögðu áherslu á að kaupendur og seljendur myndu vinna saman að því að skapa eitthvað nýtt og spennandi – og Vestfirðir eru fullkominn valkostur í þeim efnum, enda nýr og óþekktur áfangastaður í hugum flestra asískra ferðaskipuleggjenda. Við ræddum við fjölbreytt fyrirtæki, þar á meðal nokkra aðila frá Tævan sem sýndu mikinn áhuga. Þá voru einnig samtöl við fyrirtæki sem skipuleggja skólaferðir og útivistaferðir, auk þess sem við ræddum mögulegt samstarf við japanskan áhrifavald og grínista, Masaaki Hirai, sem hefur mikinn áhuga á fuglalífi og Sigurrós.

Ferðaskipuleggjendum þótti einstaklega gaman að heyra af norðurljósunum og náttúrufegurð Vestfjarða, en það sem vakti hvað mesta lukku var sagan um galdrana á Ströndum og sérstaklega nábrækurnar. Það var augljóst að sérstaða er lykilatriði þegar kemur að því að selja Vestfirði sem áfangastað. Norðurljós eru alls staðar á Íslandi og lundar eru víða, en það eru ekki allir með galdrasögur eins og á Ströndum!

Vinir í austri

Einn af hápunktum ferðarinnar var heimsókn mín í sendiráð Íslands í Tókýó. Ég átti fyrirfram skipulagðan fund þar með Ragnari Þorvarðarsyni, varamanni sendiherra, og Ryosuke Hosaka (Rio), viðskiptafulltrúa sendiráðsins. Við ræddum um ferðamál og hvernig hægt væri að kynna Vestfirði betur fyrir japönskum ferðamönnum. Einnig ræddum við um aðrar atvinnugreinar sem stundaðar eru á Vestfjörðum, eins og sjávarútveg, laxeldi og þörungarækt, og hvernig sendiráðið gæti aðstoðað við að koma á viðskiptasamböndum. Fundurinn var afslappaður og ánægjulegur, og það var greinilegt að mikill áhugi var fyrir því að efla tengslin milli Japans og Vestfjarða á fleiri sviðum en eingöngu ferðaþjónustu.

Mikilvægi sérstöðunnar

Helsti lærdómurinn úr ferðinni, sérstaklega úr vinnustofunni, er mikilvægi þess að hafa einstakan sölupunkt (e. unique selling point). Þetta sást mjög greinilega í viðbrögðum við galdrasögunum frá Ströndum – það er eitthvað sem enginn annar er með. Vestfirðir eiga sér einstakan karakter og jafnvel karaktera ef út í það er farið – og það er lykilatriði að leggja áherslu á það í markaðssetningu á svæðinu.

Ferðin til Japans var bæði lærdómsrík og skemmtileg, og hún undirstrikar hversu mikla möguleika Vestfirðir hafa á þessum markaði. Nú tekur við eftirfylgni, og ég hlakka til að sjá hvernig þetta samstarf þróast á næstu misserum.