Mikil vakning hefur orðið í þörungarækt í Evrópu síðastliðna áratugi og hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem hafa hafið ræktun á þörungum.
Á Patreksfirði hefur fyrirtækið Nordic Kelp, sem er í eigu Odds Rúnarssonr og Víkings Ólafssonar, tekið þátt í NORA rannsóknarverkefni sem gengur út á að finna hentugar staðsetningar, staðla búnað til ræktunar stórþörunga á Íslandi, Grænlandi og í Noregi og miðla þekkingu milli landanna. Markmið verkefnisins er að nota sama búnað og sömu aðferðir í löndunum þremur til að geta metið mismuninn á ræktunarsvæðunum.
Í vor voru tekin móðurplanta af heilbrigðum beltisþara í Patreksfirði og send til Hollands til ræktunar. Svo voru gró af þeirri plöntu send aftur heim. Mikilvægt er að nota gró af móðurplöntum á hverju svæði fyrir sig til að trufla lífríkið sem minnst auk þess sem þær tegundir sem þegar eru til staðar eiga auðveldara uppdráttar frá náttúrunnar hendi.
Í síðustu viku voru línurnar lagðir út og geta vegfarendur séð belgina í Patreksfirðinum undir Raknadalshlíðinni. Það verður spennandi að sjá hvernig ræktunin mun ganga næsta árið og niðurstöðurnar munu nýtast til að taka ákvarðanir um framhald þörungaræktunar í firðinum og hvernig best verður að þeim staðið.
Nordic Kelp hefur auk þess setið fræðslufundina ALGEA II þar sem þörungafræðingar frá frumframleiðslu til smásala bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa haldið reglulega fundi og farið yfir málefni er varða þörunga en það er ljóst að heimurinn horfir til þess að geta ræktað þörunga bæði sem fóður, fæðu og til að minnka umhverfisáhrif.
Náttúrulegir þaraskógar eru mjög mikilvæg búsvæði fyrir svil og aðrar lífverur og því er áherslan að minnka á slátt þaraskóga og sjónir að beinast í auknum mæli að þörungaræktun. Ræktunin hefur jákvæð umhverfisáhrif og í samspili við fiskeldi getur þörungarækt nýtt umfram næringarefni í fjörðunum þar sem eldið er stundað og skapað þannig jafnvægi.
Þörungarækt er spennandi ný atvinnugrein en eitt af verkefnunum nú er að þörungarækt verði skilgreind í lögum og komið á hreint hverjir veita leyfi til þörungaræktar og að í strandskipulögum við landið sé gert ráð fyrir þessari nýju vaxandi grein. Það verður spennandi að sjá framvindu þessa spennandi nýsköpunarverkefnis hjá Nordic Kelp.