Fara í efni

Ný kómedía frumsýnd á föstudag

Fréttir

Vestfirska atvinnuleikhúsið Kómedíuleikhúsið frumsýnir föstudaginn 4. febrúar nýtt íslenskt leikverk er nefnist Vestfirskur skáldskapur á 57. mín og vestfirsk tónlist á 27. mín. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða. Eins og nafnið gefur til kynna er vestfirskur skáldskapur eins og hann leggur til umfjöllunar og er af nægu að taka. Þó um háalvarlegar bókmenntir sé að ræða þá er um óvæntan gamanleik að ræða. Þegar er uppselt á frumsýningu en laus sæti á 2 sýningu laugardaginn 5. febrúar kl. 20. Næstu sýningar verða föstudaginn 11. og 12. febrúar einnig kl. 20. Síðsta sýningarhelgi sem fyrirhuguð er í Arnardal verður 17. og 18. febrúar. Miðasala á allar sýningar er hafin í síma 450 5565. Sýnt er í Arnardal.

Í kynningu á verkinu segir: Vestfirðingar hafa löngum verið þekktir hagyrðingar og sögumenn. Frásagnarlistin er þeim í blóð borin og að henda fram stöku er þeim jafn eðlislægt og að draga andann. Þau eru ófá þjóðskáldin og stórskáldin úr röðum Vestfirðinga í gegnum aldirnar ... Þeir félagar í Kómedíuleikhúsinu gera vestfirskum skáldskap skil ... svo að úr verður bráðfjörug og skemmtileg sýning, sneisafull af sprenghlægilegum uppákomum með tilvísanir í okkar þekktustu skáld.

Að skáldskapnum loknum verður farið í gegnum vestfirska tónlist á 27. mín. Eins og í skáldskapnum á tónlistin að vestan sér litríka sögu eða hver kannast ekki við BG og Ingibjörg, Facon, Ýr, Grafík, Mugison og þannig mætti lengi telja.

Leikarar og leikgerð: Ársæll Níelsson, Elfar Logi Hannesson
Tónlist: Guðmundur Hjaltason
Leikmynd/búningar/leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir