Hafsjór af hugmyndum auglýsir styrki til háskólanema vegna lokaverkefna. Styrkupphæð getur numið allt að einni milljón króna fyrir verkefni sem hafa það að markmiði að skapa aukin verðmæti úr sjávarauðlindum eða efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Það er sjávarútvegsklasi Vestfjarða sem stendur að baki Hafsjó af hugmyndum og fer Vestfjarðastofa með umsýslu verkefnisins. Sjóðurinn hefur úthlutað styrkjum frá árinu 2020 og hafa mörg spennandi lokaverkefni komið til framkvæmda.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir og er umsóknarfrestur til 21. október. Háskólanemar á grunn- eða framhaldsstigi geta sótt um og hægt er að vinna verkefnin út frá tveimur útgangspunktum. Annað hvort koma sjálf með hugmynd eða vinna að fyrirfram mótuðum hugmyndum frá fyrirtækjum í Sjávarútvegsklasa Vestfjarða. Fjölmörg fyrirtæki mynda klasann og auk styrksins er hægt að leita til þeirra um þátttöku, hvort sem hún er fólgin í upplýsingagjöf, hráefnisöflun eða aðstöðu.
Markmiðið með styrkveitingunum er að hvetja til nýsköpunar og skapa tengsl háskólanema og fyrirtækja í gegnum samstarf. Auk þess er verkefnunum ætlað að skapa ný og eftirsóknarverð störf í sjávarútvegi eða tengdum greinum á Vestfjörðum og afla þekkingar um sjávarbyggðir Vestfjarða
Lokaverkefnin geta snúið að verkefnum í náttúru- og tæknigreinum, sem og í viðskipta- og félagsvísindum í tengslum við sjávarútveg. Þau geta því verið unnin á breiðum fræðilegum grunni og innan ólíkra sviða. Styrkirnir eru hugsaðir til að greiða fyrir rannsóknarkostnað, hvort sem það er vegna sýnatöku, mælinga, viðtala eða annars sem viðkemur rannsókninni með beinum hætti.
Hafsjó af hugmyndum má kynna sér betur á síðu verkefnisins og þar er einnig að finna umsóknarform á íslensku og ensku.