Fara í efni

Opnað fyrir umsóknir um styrki fyrir Nýsköpunar- og samfélagsverkefni á Flateyri.

Fréttir

Starfshópur sem skipaður var þann 24. janúar sl. fékk það hlutverk að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar snjóflóðanna þann 14. janúar sl. Meðal aðgerða sem starfshópurinn gerði tillögur um er að veittir verði styrkir til nýsköpunar- og þróunarverkefna á Flateyri.

Á árinu 2020 verða kr. 8 milljónir til úthlutunar samkvæmt þessari tillögu.  Mat verkefna tekur mið af íbúasamráði í tengslum við samfélagsverkefni á Flateyri og markmið Sóknaráætlunar Vestfjarða. Þær umsóknir sem berast í sjóðinn verða metnar af verkefnisstjórn byggðarlagsins sem skipuð er fulltrúum frá Ísafjarðarbæ, Vestfjarðastofu og hverfisráði Flateyrar.

Auglýst er eftir umsóknum úr Þróunarverkefnasjóði fyrir styrki til nýsköpunar- og samfélagsverkefna á Flateyri, sem verkefnisstjórn veitir úr.

Umsóknarfrestur er til og með 30. september 2020 kl. 16.00. 
Allir sem búa yfir hugmyndum að frumkvæðis- og/eða samfélagverkefnum í samfélaginu á Flateyri eru hvattir til að sækja um. Athugið að vönduð umsókn eykur líkur á úthlutun úr Þróunarsjóði. Umsækjendum er bent á að kynna sér úthlutunarreglur sjóðsins áður en hafist er handa við að fylla út umsókn. 

Á síðu Vestfjarðastofu er hægt að sækja um styrk til verkefna sem efla samfélagið á Flateyri.
Styrkhæf verkefni eru rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefni þar sem markvisst er stefnt að markaðssetningu nýrrar eða endurbættrar vöru eða þjónustu. Einnig er heimilt að styrkja stofnfjárfestingu í hvers konar verkefnum að því gefnu að þau raski ekki samkeppni á svæðinu. Enn fremur samfélagseflandi verkefni önnur en þau sem teljast til lögbundinna og/eða hefðbundinna verkefna ríkis eða sveitarfélaga. 

Allar þær upplýsingar eða gögn sem talið er að geti styrkt umsóknina skulu fylgja sem viðhengi. Dæmi; viðskiptaáætlanir, rekstraráætlanir, ársreikningar, teikningar, meðmælabréf, myndir eða ýtarlegri verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir.
Umsækjendum er bent á að kynna sér úthlutunarreglur sjóðsins áður en hafist er handa við að fylla út umsókn. Það er góð regla að vista umsóknina sem PDF í sinni endanlegu mynd.

Athugið að ekki er hægt að vinna í umsókninni eftir að hún hefur verið send. 

Verklag um umsýslu fjármuna Þróunarsjóðs Flateyrar má finna hér
Umsókn í sjóðinn er að finna hér