Fara í efni

Píanó, harmóníka, ljósmyndir!

Fréttir

Dagskráin í Hömrum á Ísafirði er fjölbreytt þessa dagana:

Fimmtudagskvöldið 24. júlí kl. 20:00, heldur Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari einleikstónleika.
Á dagskránni eru ýmsar píanóperlur – Ítalski konsertinn eftir Bach, Sonata Pathétique eftir Beethoven, Barcarolle eftir Chopin, og verk eftir Jónas Tómasson og Olivier Messiaen.

Föstudagskvöldið 25. júlí kl. 20:00 opnar rúmenski ljósmyndarinn Octavian Balea sýningu á verkum sínum í Hömrum  undir yfirskriftinni Engill og brúða.  Aðaluppistaða sýningarinnar eru ljósmyndir sem hann tengir við frægt tónverk Bachs, Goldberg-tilbrigðin. Finnski harmóníkuleikarinn Terhi Sjöblom kemur fram á opnun sýningarinnar.

Á laugardag, 26. júlí kl. 16:00 heldur Terhi tónleika í fullri lengd, með verkum eftir norræn tónskáld og fleiri.

Aðgangur að báðum tónleikunum og sýningunni er ókeypis.

Anna Áslaug Ragnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Ísafjarðar og nam síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Að loknu einleikaraprófi þar fór hún til framhaldsnáms til Bretlands, Ítalíu og Þýskalands. Anna Áslaug hefur komið fram sem píanóleikari í ýmsum löndum Evrópu og Ameríku. Á Íslandi hefur hún oft leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og haldið einleikstónleika víðs vegar um landið. Hún hefur leikið inn á upptökur fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið og Íslensk tónverkamiðstöð hefur gefið út hljómplötu þar sem hún leikur verk íslenskra höfunda. Á síðari árum hefur hún einnig verið meðleikari með ljóðasöng og kammertónlist.
 
Octavian Balea fæddist í Búkarest árið 1984. Hann lagði stund á hönnun og listnám við Nicolae Grigorescu háskólann í Búkarest og við Bauhaus-háskólann í Weimar. Hann býr nú í Finnlandi en hefur nokkrum sinnum komið til Íslands. hann hefur hrifist af Vestfjörðum sérstaklega og hefur áhuga á að gera ljósmyndabók um svæðið.

Terhi Sjöblom fæddist í Tuusula í Finnlandi árið 1983 og hóf nám á píanó 7 ára að aldri. Hún fór að leika á harmóníku nokkrum árum síðar í heimabæ sínum og var nemandi Elina Leskelä næstu níu árin. Á þessum tíma tók hún þátt í mörgum tónlistarkeppnum bæði í einleik og kammertónlist. Hún komst m.a. í úrslit í hinni virtu Klingenthal harmóníkukeppni í Þýskalandi árið 2002. Sama ár innritaðist hún í Síbelíusarakademíuna í Helsinki þar sem Matti Rantanen hefur verið harmóníkukennari hennar. Hún var einnig tvö ár skiptinemi við Tónlistarháskólann í Weimar hjá Ivan Koval. Terhi hefur lokið B-Mus gráði frá Síbelíusarakademíunni og stefnir á að ljúka meistaragráðu næsta vor. Í námi sínu hefur Terhi lagt sérstaka áherslu á klassíska og nýja tónlist.  Harmóníkan gegnir mikilvægu hlutverki í finnsku tónlistarlífi og flest finnsk tónskáld hafa skrifað verk fyrir hljóðfærið