Fara í efni

Púkinn hefst á mánudag

Fréttir

Á mánudag hefst barnamenningarhátíðin Púkinn. Hátíðin er ætluð öllum grunnskólabörnum á Vestfjörðum og er hún sú fyrsta sinnar tegundar á svæðinu. Í dag fór í loftið heimasíða hátíðarinnar undir slóðinni pukinnhatid.is og voru það Haraldsson Production sem sáu um útlit Púkans og vefhönnun. Á síðunni er hægt að nálgast dagskrá hátíðarinnar og þá verður þar einnig að finna annað efni henni tengt. Við erum líka komin með Facebook-síðu  þar sem inn munu koma viðburðir og fréttir af því sem verið er að fást við á Púkanum.

Á Púkanum verður boðið upp á ýmsa viðburði inn í grunnskólum á Vestfjörðum. Þema þessarar fyrstu hátíðar er sögur og munu öll börn á svæðinu skrifa sögu um eitthvað sem á daga þeirra dreif nýliðið sumar. Dansarinn Sigríður Soffía Níelsdóttir mun fara um svæðið og kenna dansspor hátíðarinnar og verður það einnig birt á heimasíðunni svo ungir sem aldnir geti nálgast það og dansað saman Púkadansinn. Misjafnt er hvað boðið verður upp á á ólíkum stöðum og á mismunandi skólastigum, en kapp lagt á að eitthvað verði í boði fyrir alla. Nefna má ritlistarsmiðjur, gervigreindar-listasmiðjur, kvikmyndagerðarnámskeið og grímugerð. Hátíðinni lýkur 22. september og verða þá lokahátíðir á Ísafirði, Patreksfirði, Ströndum og í Bolungarvík.

Þá bjóða ýmsar menningarstofnanir og listamenn upp á viðburði utan skóla. Þjóðsagnarratleikur verður á Sævangi, Teiknimyndatónlist Í Tónlistarskóla Ísafjarðar, smiðja í sagnagerð og myndskreytingu í bókasafninu á Patreksfirði, Dungeons & dragons í Djúpinu og Listasmiðja í Safnahúsinu á Ísafirði, Krakkadiskó og skapandi smiðja á Vagninum á Flateyri, Flugdrekasmiðja á Ísafirði, Barnabær Krakkaveldis, Miðgarðsormur á Galdrasýningunni á Hólmavík og Skápur forvitninnar í bókasafninu í Bolungarvík. VerkVest mun svo bjóða vestfirskum börnum á kvikmyndasýningar í Ísafjarðarbíói og Skjaldborgarbíói. Félagsmiðstöðin í skýjunum verður með allskonar viðburði á netinu sem standa opnir öllum vestfirskum unglingum.

Vestfjarðastofa hefur yfirumsjón með skipulagningu Púkans. Við skipulagningu hátíðarinnar var lögð áhersla á að viðburðir sem Púkinn byði upp á færu inn í skólana til að tryggja aðgengi sem flestra barna að þeim. Þá var líka auglýst eftir umsóknum um verkefni sem hátíðin styrkti til framkvæmda á meðan á henni stæði. Verkefnisstjóri hátíðarinnar er menningarfulltrúi Vestfjarða Skúli Gautason.

Vonir standa til þess að þetta verði aðeins fyrsti Púkinn af mörgum, þar sem hátíð sem þessi er fullkominn vettvangur fyrir vestfirsk börn að vinna saman að verkefnum á sviði lista og menningar, auk þess að bjóða upp á skemmtilega viðburði því tengdu.