Stjórn BsVest hefur samþykkt að ráða Sif Huld Albertsdóttur í starf verkefnastjóra. Sif er 27 ára og er þroskaþjálfi að mennt auk iðnmenntunar. Hún hefur veitt forstöðu Hæfingarstöðinni Hvestu hjá Ísafjarðarbæ í fæðingarorlofi forstöðumanns, auk þess að hafa starfað innan félagsþjónustu Ísafjarðarbæjar með námi.
Sif Huld tekur við starfi verkefnisstjóra úr höndum Arnheiðar Jónsdóttur sem hefur gegnt starfi verkefnastjóra frá stofnun BsVest í ársbyrjun 2011. Arnheiður hefur tekið við nýju starfi í félagsþjónustu Vesturbyggðar. Um leið og Sif Huld er boðin velkomin til starfa, vill stjórn BsVest þakka Arnheiði Jónsdóttur mikilsvert starf við uppbyggingu og þróun starfsemi BsVest og henni óskað velfarnaðar í nýju starfi.
Starfstöð verkefnisstjóra BsVest mun við þessar breytingar flytjast frá Patreksfirði til Ísafjarðar. Nánar tiltekið í Árnagötu 2-4, Ísafirði, sama húsnæði og skrifstofur Fjórðungssambands Vestfirðinga. Sími og netfang verkefnastjóra verður óbreytt.