Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar að því að þingsályktunartillaga að samgönguáætlun 2015-2018 komi nú til afgreiðslu Alþingis og skorar á Alþingi að veita henni nú brautargengi eftir þriggja ára bið. Fyrir samfélög á Vestfjörðum er mikilsverðast að með samþykki tillögunnar þá staðfestir Alþingi vilja stjórnvalda að farið verði í nýframkvæmdir og endurbætur úreltra malarvega, sem hér segir;
- Vestfjarðavegur 60 um Gufudalssveit í Reykhólahreppi,
- Dýrafjarðargöng
- Dynjandisheiði
- framkvæmdir á vegi norður í Árneshrepp.
Fjórðungssambandið fagnar því einnig að gerð er tillaga um að auka fjármagn til samgöngumála að nýju eftir að það var skorið harkalega niður á árinu 2009 og síðan staðið í stað eða lækkað. Víða stórsér á vegakerfi, höfnum og flugvöllum landsins, sem er bagalegt með tilliti til áherslu stjórnvalda um eflingu ferðaþjónustu sem einnar af aðalatvinnugreinum þjóðarinnar. Fjórðungssambandið tekur því undir áherslur um aukið fjármagn renni til viðhalds vegakerfisins, um eflingu innanlandsflugs og um eflingu almenningssamgangna.
Fjórðungssamband Vestfirðinga lýsir hinsvegar vonbrigðum að í tillögum meirihluta umhverfis og samgöngunefndar um viðbótarfjármagn til stofn og tengivega, er hlutur Norðvesturkjördæmis lítill, þ.e. ef ekki er horft til nýframkvæmda á Vestfjörðum. Í Norðvesturkjördæmi er hröð uppbygging ferðaþjónustu og nú síðustu ár í fiskeldi á Vestfjörðum. Því er mjög miður að meginhluti viðbótarfjármagns til vegaframkvæmda rennur til annarra kjördæma með vísan til málefna er varða ferðaþjónustu, sjávarútvegs, öryggismála og byggðamála. Fjórðungssamband Vestfirðinga lýsir síðan vonbrigðum hve litlu fjármagni er veitt til rannsókna á gerð jarðgangna í samgönguáætlun, en einungis einn jarðgangakostur er nú til rannsóknar. Af þeim sökum er ekki hægt að ræða jarðgangaframkvæmdir í víðara samhengi og setja fram heildstæða áætlun.