Skráning er hafin á námskeið í markaðssetningu á netinu og á ráðstefnu um ímynd Vestfjarða, námskeiðið verður haldið 12. nóvember og ráðstefnan daginn eftir, 13. nóvember n.k.
Námskeiðið verður haldið á Ísafirði en ráðstefnan á Suðureyri.
Markaðssetning á netinu – Námskeið 6 klst.
Þann 12. nóvember nk. stendur Markaðsstofa Vestfjarða fyrir námskeiði í markaðssetningu á netinu. Þau Gunnar og Edda hjá Kapli markaðsráðgjöf munu kenna námskeiðið, þar verður farið yfir það helsta sem snýr að markaðssetningu á netinu fyrir ferðaþjónustuaðila. Meðal efnis sem farið verður í er árangursrík uppbygging vefsíðna fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, farið í grunnatriði leitarvélabestunar og hvernig á að skrifa texta fyrir netið. Auk þess að farið verður yfir helstu leiðir í markaðssetningu í auglýsingakerfi Google þ.a.m. PPC auglýsingar og vefborðaauglýsingar inn á ákveðin markaðssvæði eða markaðssyllur. Þá verður farið yfir helstu nýjungar á samfélagsmiðlum og rýnt í mikilvægi þeirra. Námskeiðið endar á þar sem tvær síður verða teknar fyrir í opinni svokallaðri "site-clinic" en sú leið getur nýst vel öllum þátttakendum á námskeiðinu.
Framtíð ferðaþjónustu á Vestfjörðum - Ímynd, fjármögnun, markhópar - Ráðstefna
Þann 13. nóvember nk. heldur Markaðsstofa Vestfjarða í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða ráðstefnu um ímynd Vestfjarða og áhrif ímyndar á sölumöguleika og fjárfestingar í ferðaþjónustu á svæðin. Á fundinum sem haldinn verður á Suðureyri verða teknar ákvarðanir um stefnu og framtíðarsýn í markaðsmálum Vestfjarða sem áfangastaðar ferðamanna og því mikilvægt að sem flestir mæti og taki þátt í vinnustofu tengdri ráðstefnunni.
Á ráðstefnunni verður meðal annars erindi frá Anders Stenbakken ferðamálastjóra Grænlands þar sem hann mun fjalla um þá flottu vinnu sem Grænlendingar hafa unnið undanfarin ár.
Verð:
Aðilar að Markaðsstofu Vestfjarða sem greitt hafa árgjald 2013: 20.000 kr.*
Aðrir: 30.000 kr.*
*Innifalið í verðinu er ráðstefnan, hádegismatur báða dagana og námskeið í markaðssetningu á netinu.