Í lok janúar kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi, lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirlit. Uppbygging fiskeldis skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt á Vestfjörðum og vert er að minna á að ríkissjóður nýtur góðs af þeim verðmætum sem starfssemin skapar.
Í málflutningi Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga undanfarin ár hefur verið lögð á það áhersla að hér er um að ræða stærsta tækifæri til jákvæðrar byggðaþróunar á svæðinu í áratugi og að atvinnugreinin hefur síðustu 10 ár byggst upp og skotið styrkari stoðum undir atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum.
Raddir að vestan
Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa á undanförnum árum bent ítrekað á að lagaumhverfi, stjórnsýsla og eftirlit í greininni sé ekki í neinum takti við þróun fiskeldis sem er orðin stór atvinnugrein á Vestfjörðum. Viðbrögð við ábendingum okkar og sveitarfélaga á Vestfjörðum hafa verið lítil innan stjórnsýslunnar.
Frá árinu 2008 hefur Fjórðungssamband Vestfirðinga kallað eftir aðgerðum stjórnvalda í umsögnum um lagafrumvörp og tillögum um að farið verði í gerð strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði. Þekking var til staðar á þróun atvinnugreinarinnar og stjórnsýslu í öðrum löndum og reynt var að vekja athygli á því strax þá að nauðsynlegt væri að móta atvinnugreininni góðan ramma til að hún gæti þróast til að efla byggðirnar í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag.
Mikil áhersla hefur verið lögð á það á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu að fram fari vönduð vinna sem birst hefur í umsögnum um lagafrumvörp, greiningum um áhrif atvinnugreinarinnar, fundum og málþingum. Eðli málsins samkvæmt hefur Vestfjarðastofa verið að halda á lofti hagsmunum samfélaganna inn í umræðu af hálfu fulltrúa atvinnulífs og umhverfis.
Áhersla Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands hefur þó ávallt verið sú að uppbygging greinarinnar verði sjálfbær og horft sé til jafnvægis umhverfis, samfélags og efnahagslegra þátta við uppbygginguna. Ítrekaðar tilraunir Fjórðungssambandsins, Vestfjarðastofu og sveitarfélaga á Vestfjörðum til að eiga raunverulega aðkomu að mótun umgjörðar um atvinnugreinina hafa ekki borið árangur.
Fólkið í fiskeldinu á Vestfjörðum
Umræðan það sem af er mánaðarins hefur verið nokkuð sérstök þegar horft er út frá vettvangi hér vestur á fjörðum. Svo virðist sem auðvelt sé að tala niður og út af borðinu atvinnugrein sem einkum er stunduð langt frá höfuðborgarsvæðinu. Því er vert að halda til haga að Ríkisendurskoðun er að gagnrýna framkvæmd ríkisvaldsins og stofnana þess sem hafa því miður brugðist eins og sjá má af 23 ábendingum í skýrslunni.
Ekki einni af þessum ábendingum er beint til fólksins sem starfar í atvinnugreininni eða sveitarfélögunum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Gleymum því ekki.
Umræðan er hins vegar þannig að ætla má að því eigi að fylgja mikil skömm að stunda og starfa við sjókvíaeldi. Við Íslendingar erum dugleg að tala niður okkar stærstu atvinnugreinar, það þykir víst ekki fínt heldur að starfa í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu.
Uppbygging atvinnulífs er kjarni þróunar byggða um allan heim. Samkeppnishæfar, sjálfbærar atvinnugreinar skipta miklu máli fyrir slíka þróun. Vöxtur sjókvíaeldis hefur verið hraður og mikill á Vestfjörðum síðustu ár og á 10 árum hefur beinum störfum í fiskeldi fjölgað úr 45 árið 2011 í 246 árið 2021. Hér eru ekki talin óbein störf tengd fiskeldi sem ætla má að séu fjölmörg og um allt land. Atvinnutekjur af atvinnugreininni hafa á tímabilinu nífaldast.
Íbúum á Vestfjörðum hefur fjölgað úr rúmlega 6.800 árið 2017 í rúmlega 7.300 árið 2023. Hér er um að ræða viðsnúning í því sem talinn var óstöðvandi neikvæður spírall fólksfækkunar á þessu svæði.
Ákall sveitarfélaga á Vestfjörðum
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er eins og áður hefur verið sagt, varla minnst á sveitarfélögin sem kallað hafa eftir að koma að ákvörðunum og að tekjur til sveitarfélaganna kæmu með eðlilegum hætti en þurfi ekki að sækja skatttekjurnar af greininni á formi „styrkja” úr sjóðum sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu.
Fiskeldissveitarfélög á Vestfjörðum gerðu með sér samfélagssáttmála og markmið hans var að tryggja að nærsamfélögin nytu ávinnings af fiskeldisuppbyggingunni og að fiskeldið væri stundað í sátt við umhverfi og samfélag og lyti ströngustu umhverfiskröfum.
Sveitarfélögin höfðu ekki neina aðkomu að þeirri stefnumótunarvinnu sem sett var af stað árið 2016 þrátt fyrir kröfur sveitarfélaga um slíkt. Sveitarfélögin hafa kallað eftir átaki í uppbyggingu innviða til að verða samkeppnishæf og þess að blómlegt samfélag byggist upp samhliða hinum öra vexti greinarinnar.
Gjaldtaka af sjókvíaeldi
Umræða um gjaldtöku af fiskeldi hefur verið mikil í umræðunni síðustu daga og jafnvel látið liggja að því að fiskeldið skili engu til íslensks samfélags. Rétt er í þessari umræðu að minna á lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð nr. 89/20191. Jafnframt ber að minna á að í sjötta kafla í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 með áorðnum endurbótum er fjallað um umhverfissjóð sjókvíaeldis2.
Þau gjöld sem fiskeldið greiðir til íslenska ríkisins fyrir utan hefðbundna skatta fyrirtækja eru því gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og fiskeldisgjald. Að auki greiða fyrirtækin aflagjald af lönduðum afla til sveitarfélaga þar sem laxi er landað til slátrunar.
Aflagjald byggir á hafnarlögum, er hlutfall af verðmætum landaðs afla og rennur til sveitarfélaganna. Starfsemin dreifist á milli fjarða en allar tekjurnar koma þar sem eldisfiskinum er landað “dælt á land” en aðrar hafnir þar sem þjónustubátarnar eru á ferðinni 365 daga á ári sitja eftir nær tekjulausar. Á það hefur verið bent af hálfu sveitarfélaga á Vestfjörðum að þessi aðferð á illa við í fiskeldi. Hafnarlög eru sett á Alþingi og heyra undir innviðaráðuneytið en þau ná ekki yfir starfsemi fiskeldisgreinarinnar svo eðlilegt tekjustreymi komi til allra hafna fiskeldissveitarfélaganna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er aflagjaldið ekki nefnt.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er farið ítarlega yfir starfsemi umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Vestfjarðastofa hefur bent á þá óeðlilegu stöðu að Hafrannsóknarstofnun sé gert að sækja um fjármagn í samkeppni við einkaaðila til að sinna lögbundnum verkefnum. Umhverfissjóður sjókvíaeldis hefur úthlutað rúmlega milljarði til verkefna á árunum 2015-2022.
Fiskeldissjóður er ætlaður sveitarfélögunum til að byggja upp innviði og þjónustu. Af fiskeldisgjaldinu sem fyrirtækin greiða á samkvæmt lögum 1/3 að renna til sveitarfélaganna en 2/3 til ríkisins. Sá hluti sem rennur til fiskeldissveitarfélaganna er settur í samkeppnissjóð en Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gagnrýnt það fyrirkomulag að sækja þurfi um fjármagn til uppbyggingar innviða í samkeppnissjóð sem úthlutar til eins árs í senn. Ljóst er að stórar fjárfestingar í innviðum sveitarfélaga er erfitt að hefja með styrkvilyrðum til eins árs í senn. Fiskeldissveitarfélög á Vestfjörðum hafa ítrekað bent á að þetta fyrirkomulag er óeðlilegt.
Starfsumhverfi fyrirtækja
Umgjörð atvinnulífs er mótuð með lögum og reglum sem ættu að hafa grunn í rannsóknum og vera fylgt eftir með eftirliti. Til að byggja upp öflugar rannsóknir og eftirlit er nauðsynlegt að það sé vel mannað og fjármagnað. Það kemur skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að miklar kröfur eru gerðar til eftirlits- og rannsóknastofnana en þeim kröfum ekki fylgt eftir með fjármagni.
Í skýrslunni kemur eftirfarandi fram: „Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom raunar í ljós að hvorki hagsmunaaðilar, viðkomandi ráðuneyti né þær stofnanir sem koma að stjórnsýslu sjókvíaeldis eru fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markað.”
Uppbygging sjókvíaeldis síðustu ár ætti að hafa skapað einstakt tækifæri til að fjölga störfum fræði- og eftirlitsmanna í nærumhverfi atvinnugreinarinnar, en því miður hafa stjórnvöld alveg látið þau tækifæri fram hjá sér fara. Ef eðlilega væri staðið að málum væru á Vestfjörðum öflugar starfsstöðvar til dæmis Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar og Fiskistofu. Raunin er sú að fækkað hefur hjá Hafrannsóknarstofnun um tvo starfsmenn úr sjö í fimm frá 2017, Matvælastofnun segist vera með tvo starfsmenn á svæðinu, Fiskistofa einn en enginn starfsmaður Umhverfisstofnunar á Vestfjörðum tengist fiskeldi á nokkurn hátt.
Að lokum
Auðvelt er að taka undir með ríkisendurskoðanda að fjölmörgu er ábótavant í lagaumhverfi og umgjörð greinarinnar og vonandi bregst löggjafinn nú hratt við og nýtir við þá vinnu krafta allra hagaðila.
Í umræðunni bendir hver á annan en brýnt er að vinna að heildar stefnumótun fyrir greinina á Íslandi og því er þessi skýrslu ágætt fyrsta skref. Stjórnvöldum ber að nota þessar upplýsingar til að vinna að lagaumhverfi sem byggir upp heilbrigða atvinnugrein til framtíðar fyrir fyrirtækin, sveitarfélögin í nærumhverfi greinarinnar og samfélagið í heild.
Þessi grein er birt sama dag og kynnt verður skýrsla Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þess má vænta að í þeirri skýrslu verði brugðist við einhverju af því sem hér er fjallað um.
Samantekt unnin af Sigríði Ó. Kristjánsdóttur, Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur og Aðalsteini Óskarssyni starfsmönnum Vestfjarðastofu.
Þessi grein birtist fyrst í fréttabréfi Vestfjarðastofu 28. febrúar