Fara í efni

Soð Í Dýrafirði slær í gegn í Finnlandi

Fréttir
Skjáskot af vefsíðu finnska ríkisútvarpsins þar sem Soð í Dýrafirði er til sýninga um þessar mundir.
Skjáskot af vefsíðu finnska ríkisútvarpsins þar sem Soð í Dýrafirði er til sýninga um þessar mundir.

Sjónvarpsþátturinn Soð í Dýrafirði, sem var sýndur á RÚV á síðasta ári, hefur verið tekinn til sýninga hjá Finnska ríkissjónvarpinu (YLE).

Kristinn Guðmundsson, yfirkokkur og höfundur Soðs, segir að þetta hafi komið skemmtilega á óvart og að það sé frábært að Soð í Dýrafirði höfði ekki eingöngu til Íslendinga heldur nái vel til annars og fjölmennari áhorfendahóps.

„Þetta er ekki einungis ánægjulegt fyrir okkur sem stöndum að Soði í Dýrafirði, þetta er einnig frábær kynning fyrir Dýrafjörð, Vestfirði og Ísland almennt“. Hér vísar Kristinn í það að gerð þáttanna var styrkt af verkefninu „Öll vötn til Dýrafjarðar“ sem er hluti af átaksverkefninu „Brothættar byggðir“ á vegum Byggðastofnunar.

En hvernig hafa viðtökurnar verið? „Ég hef ekki séð neinar áhorfstölur“ sagði Kristinn, „En miðað við aukna umferð, „læk“ og vinabeiðnir frá Finnum á Facebook og Instragram þá er ljóst að þó nokkur fjöldi Finna eru að fylgjast með þáttunum“.

Hvaða þýðingu hefur styrkur frá „Öll vötn til Dýrafjarðar“ fyrir framleiðsluna á þessum þáttum? Svarið við því er einfalt segir Kristinn, án svona styrks þá eru engar líkur á því að Soð í Dýrafirði hefði orðið að veruleika.

Hvað með áhrif svona þáttaraðar fyrir „brothætta byggð“ eins og Þingeyri? „Nú er ég enginn sérfræðingur í byggðamálum, en núna vita fjölmargir Íslendingar og enn fleiri Finnar að Dýrafjörðurinn er stórkostlegt svæði, sem býður upp á marga möguleika bæði fyrir þá sem þar búa og þá sem sækja staðinn heim.“ Eru ekki töluverð verðmæti falin í því? spyr Kristinn á móti.

Og hvað er næst á döfinni hjá Soð? „Nú er bara að fylgja eftir sókn Soðs í Dýrafirði erlendis, en þættirnir eru einnig væntanlegir til sýninga í Norska ríkissjónvarpinu (NRK) síðar á árinu“. Kristinn bætir við að velgengni Soðs í Dýrafirði, bæði innanlands og núna á hinum Norðurlöndunum, hvetji hann til þess að gera fleiri staðbundna Soð þætti. „Þannig að ef sveitarfélag langar að gera Soð um sitt svæði þá endilega hafið samband“ sagði Kristinn og var síðan rokinn í að klippa nýjustu þáttaröð Soðs sem er væntanleg til sýninga á RÚV í vor.

Hér má nálgast Soð í Dýrafirði á vefsíðu RÚV:

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/sod-i-dyrafirdi/31692