Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 hefur verið sett í opið samráðferli þar sem allir geta sent inn ábendingar og tillögur varðandi áætlunina, markmið hennar og innihald.
Sóknaráætlun Vestfjarða er fimm ára aðgerðaáætlun sem ætlað er að vera leiðarljós í þróun landshlutans á tímabilinu.
Vinna við sóknaráætlun hófst í byrjun árs þegar gögn um stöðu landshlutans voru rýnd og gerð úttekt á markmiðum og árangri Sóknaráætlunar Vestfjarða 2020-2024. Netkönnun var send til kjörinna fulltrúa og styrkþega Uppbyggingarsjóðs. Til að tryggja sem aðkomu fjölbreyttra hópa voru haldnir voru sjö fundir fókushópa með mismunandi áherslur. Þátttakendum í ungmennaþingi Vestfjarða gafst kostur á að koma að vinnunni og haldnir voru fimm opnir fundir á öllum svæðum Vestfjarða og var þátttaka í öllum viðburðunum mjög góð.
Afrakstur þessarar vinnu var notaður til að móta framtíðarsýn fyrir landshlutann og lagður til grundvallar í sóknaráætluninni. Settir voru fram fjórir lykilmálaflokkar og markmið og áherslur skilgreindar innan þeirra.
Sóknaráætlunin er grundvöllur vinnu Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfjarða næstu fimm árin. Stefnan mun til dæmis stýra ákvörðun um val á áhersluverkefnum og úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Jafnframt hefur Sóknaráætlun mikla tengingu við vinnu við gerð nýs Svæðisskipulags Vestfjarða til ársins 2050.
Íbúar og aðrir hagaðilar eru hvattir til að kynna sér nýja Sóknaráætlun Vestfjarða í samráðsgáttinni.