Fara í efni

Styrkir til atvinnuþróunar og nýsköpunar

Fréttir
Bátur í Mjóafirði - ljósm. Sögusmiðjan
Bátur í Mjóafirði - ljósm. Sögusmiðjan

Einn þátturinn í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur nú litið dagsins ljós og spurning hvort ekki er hægt að ná hluta af þessum peningum í menningarverkefni með úthugsuðum aðgerðum og vönduðum vinnubrögðum. Hér er um að ræða 100 milljónir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja árið 2008 til eflingar atvinnuþróunar og nýsköpunar á þeim svæðum sem verða fyrir aflasamdrætti vegna skerðingar þorskaflaheimilda. Styrkhæf svæði eru sveitarfélög og eyjar þar sem hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er 10% eða hærra. Áformað er að í fjárlögum ársins 2009 verði 100 milljónir sem verður ráðstafað á sama hátt. Umsóknafrestur er til 19. febrúar. 

Auglýst er eftir umsóknum um stuðning við verkefni á viðkomandi svæðum. Umsækjendur geta verið sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar. Hámarksstyrkur er 8 milljónir króna, þó aldrei hærri en 50% af viðurkenndum heildarkostnaði verkefnisins. Hámarks hlutafé er sömuleiðis 8 milljónir króna, þó að hámarki 50% af heildarhlutafé.

Styrkir verða veittir til:
* Stofnkostnaðar annars en kaupa/byggingar húsnæðis, véla og tækja.
* Þróunarkostnaðar á vöru og/eða þjónustu
* Markaðssetningar á vöru og/eða þjónustu.
 
Við afgreiðslu umsókna verður sérstaklega litið til langtímaáhrifa verkefna, sköpunar nýrra starfa á svæðunum og hversu hratt störfin geta orðið til. Ekki er um að ræða styrki/hlutafé til menntunar- og rannsóknarverkefna.
Umsóknum skal skila á sérstökum umsóknareyðublöðum, sem hægt er að nálgast á heimasíðu Byggðastofnunar (www.byggdastofnun.is) og atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Umsóknum skal skila til AtVest fyrir 19. febrúar 2008.

Tengiliður hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða fyrir umsóknirnar á Ísafirði er Ásgerður Þorleifsdóttir, asgerdur@atvest.is, s: 450-3053.
Tengiliðir á Patreksfirði eru Jón Örn Pálsson, jonp@atvest.is, og Soffía Gústafsdóttir, soffia@atvest.is, s: 456-2350.
Tengiliður á Hólmavík er Viktoría Ólafsdóttir, viktoria@atvest.is, s: 451-3521.