Blábankinn á Þingeyri stóð fyrir hraðlinum Gervigreind í byggðaþróun dagana 28. nóvember – 1. desember. Alþjóðlegt lið leiðbeinenda leiddi umræður um notkun þessarar nýju tækni sem ljóst er að mun umbylta verklagi við upplýsingaöflun og gagnagerð áður en langt um líður. Kannski má orða það svo að framtíðin sé þegar hér og nú í okkar höndum að færa okkur í nyt með sem bestum hætti það sem hún hefur upp á að bjóða. Á þeim nótum var við hæfi að hefja vinnustofuna á spurningunni um siðferði í notkun gervigreindar. Það var Ketill Berg Magnússon heimspekingur sem leiddi þá vinnu og sköpuðust áhugaverðar umræður meðal þátttakenda um hvernig treysta mætti á áhrifaríkan máta siðferðislegan grunn ábyrgrar notkunar á tækninni. Í þeirri umræðu var meðal annars komið inn á hvað fer inn í gervigreindina, hver sé eigandi þess, hver sé þar við stjórn og svo á hinum endanum hvað komi út úr gervigreindinni og hvort hún sé fær um að koma með lokaniðurstöður án þess að manneskjur eigi þar með beinum hætti hlut að máli.
Næstur á dagskrá var Grammenos Mastrojeni sem talaði við hópinn frá Abu Dhabi. Grammenos er sérfræðingur á sviði sjálfbærrar þróunar og hefur gefið út bækur og fræðigreinar um umhverfisvernd, samheldni fólks og öryggismál. Sérstaklega hefur hann beint sjónum sínum að samspili umhverfislegrar rýrnunar við samfélagslega, landfræðilega og efnahagslega þætti. Matthias Kokorsch, fagstjóri í Sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða, gerði doktorsrannsókn sína um kortlagningu seiglu á strandsvæðum Íslands og var hann því vel til þess fallinn að fara yfir hvernig gervigreind mætti nýta í byggðaþróun um landið. Benti hann til að mynda á hvernig gervigreindin gæti verið hjálpartól fyrir þá sem vinna að nýsköpun og hversu mikið hún gæti auðveldað aðgengi að upplýsingum sem til þessa hefur kannski verið flóknara að kjarna.
Gunnar Ólafsson, Blábankastjóri og Andrew Melchior
Síðasta daginn var umræðan í höndum Andrew Melchior sem mikið hefur fengist við nýsköpun í stafrænu formi. Má til afreka hans á því sviði nefna samstarf hans við hljómsveitina Massive Attack, en á 20 ára útgáfuafmæli tímamótaverks þeirra Mezzanine, var platan kóðuð yfir í erfðamengisgervi sem síðan var sett á spreybrúsa og til dæmis nýtt í listsköpun. Í anda hugvits hans og þekkingar var farið í stórar sviðsmyndir þess sem hagnýting gervigreindar gæti fært okkur heim í byggðaþróun á Vestfjörðum. Andrew er þó líka mikið í hug eignarhald gagna og þar sem gervigreindin er tiltölulega ungt tæki í höndum notenda þurfi þeir að tryggja með sem bestum hætti eignarhald yfir eigin gögnum. Nýlenduvæðing gagna er hugtak sem flestum er nokkuð framandi en verður að hafa ofarlega í huga með aukinni notkun gervigreindarinnar sem tækis í almannaþjónustu.
Á Facebook síðu Blábankans má lesa um helstu niðurstöður hraðalsins.