Fara í efni

Þingmenn og sveitarstjórnarmenn hittust á Reykhólum

Fréttir
Á fundi með þingmönnum
Á fundi með þingmönnum

Fundur var haldinn í Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum í gær þar sem þingmenn Norðvesturkjördæmis hittu sveitarstjórnarmenn af Vestfjörðum í kjördæmaviku. Þar var rætt um ýmis mál og viðfangsefni sem helst brenna á íbúum Vestfjarða og snýr að ríkisvaldinu að leysa. Þung áhersla var lögð á úrbætur í fjarskiptamálum í dreifbýli og hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði, auk tengingar þeirra þéttbýlisstaða við ljósleiðarakerfið sem ekki njóta þeirra sjálfsögðu lífsgæða í dag.

 

Einnig var fjallað um nauðsyn á jöfnun raforkuverðs, annars vegar í þéttbýli og dreifbýli og hins vegar á heitum og köldum svæðum. Úrlausnir í húsnæðismálum voru einnig ofarlega á baugi, en mikill munur er á byggingarkostnaði og markaðsverði á Vestfjörðum. Skortur á íbúðarhúsnæði er því víða orðinn vandamál, ekki síst við á þeim svæðum þar sem vöxtur er og mjög vantar upp á að lánastofnanir og þá sérstaklega Íbúðalánasjóður vinni í takt við hækkandi markaðsverð. Á þeim svæðum fannst fundarmönnum ennfremur verulega vanta upp á að ríkið væri samstíga heimamönnum við uppbyggingu. Þá var þung áhersla lögð á úrbætur í samgöngumálum s.s. úrlausn mála vegna Vestfjarðavegar nr 60 og að staðið verði við áætlaðar framkvæmdir í samgönguáætlun.

 

Sjá einnig ljómandi góða úttekt á fundinum og myndir á Reykhólavefnum:

http://reykholar.is/frettir/Vestfirdingar_ad_mestu_ad_glima_vid_somu_verkefnin/