Þingmannafundur Norðvesturkjördæmis var haldinn í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 3. október. Flestir þingmenn kjördæmisins eða Bergþór Ólason, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Teitur Björn Einarsson voru þangað mættir til fundar með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum. Einnig voru þar Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir og Aðalsteinn Óskarsson fyrir hönd Vestfjarðastofu.
Vegagerð
Á fundinum var mikill þungi lagður á þau helstu mál sem þurfa að vera ofarlega í huga í störfum sem þingmenn fjórðungsins. Öryggismál á vegum og í jarðgöngum, forgagnsröðun og áætlanagerð í jarðgangnamálum, sem og vegagerð á Dynjandisheiði, Gufudalssveit og Strandavegi var allt tekið fyrir. Þá var á svipuðum nótum rædd vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á Vestfjörðum og hvernig stuttur opnunartími Vestfjarða hamlar uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga.
Auðlindagjöld
Vakin var athygli á því enn á ný á því að einu auðlindagjöldin sem þjóðin hefur innheimt eru af sjávarauðlindinni, veiðigjöld og gjaldtaka af fiskeldi. Þetta þýðir að atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum greiða hátt hlutfall slíkra gjalda ef borið er saman við aðra landshluta vegna samsetningar atvinnulífs. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um sambærileg auðlindagjöld til dæmis í orkumálum, af heitu vatni eða ferðaþjónustu. Á fundinum lögðu forsvarsmenn sveitarfélagana mikla áherslu á að fiskeldisgjald renni til sveitarfélaganna án aðkomu úthlutunarnefndar og hlutfall sveitarfélaga af fiskeldisgjaldi verði hækkað verulega. Þá var vakin athygli á umræðu um afnám tollfrelsis hringferðaskipa og mikilvægi þeirra, sérstaklega fyrir smærri hafnir.
Orkumál
Nokkur umræða var um orkumál á fundinum. Athygli var vakin á að nokkrir möguleikar eru í vinnslu og mikilvægt er að fylgja þeim öllum eftir: Hvalá, Austurgil, Skúfnavötn, Hvanneyrardalur/Tröllárvirkjun, Kvíslártunguvirkjun og Vatnsdalsvirkjun. Tvöföldun Vesturlínu er jafnframt gríðarlega mikilvæg og þarf að hefja vinnu við þá áfanga sem nýtast strax svo sem tvöföldun línu frá Mjólká í Kollafjörð.
Óstaðbundin störf
Óstaðbundin störf eru ekki að reynast vel á Vestfjörðum og oft svo að störf hafa frekar verið flutt af svæðinu en til þess. Rætt var um mikilvægi þess að efla starfsstöðvar stofnana á svæðinu þar sem niðurskurður hefur yfirleitt mest áhrif á starfsemi stofnana sem eru lengra frá höfuðborgarsvæðinu.
Niðurskurður er í framlögum til Náttúrustofa á sama tíma og krafa um auknar rannsóknir og að störf við eftirlit til dæmis í fiskeldi verði staðbundin á þeim svæðum þar sem eldið er stundað. Einnig var komið inn á að fjármagn til Sóknaráætlana lækkar sem hefur sérstaklega mikil áhrif á úthlutun vegna menningar og atvinnuþróunar. Einnig lækkar framlag til atvinnu- og byggðaþróunar (atvinnuráðgjöf) og samningar vegna áfangastaðastofa eru lausir og fjármögnun markaðsstofu því ótrygg.
Fundurinn var góður og þar fóru fram hreinskiptnar umræður um málefni Vestfjarða og þingmennirnir sendir heim með gott veganesti frá heimafólki.