Gylfi Ólafsson formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga bar fram eftirfarandi ályktun á 70. Fjórðungsþingi Vestfirðinga að vori. Ályktunin var samþykkt samhljóða.
70. Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori lýsir miklum áhyggjum af þreföldum sértækum Vestfjarðasköttum sem boðaðir er í fjármálaáætlun ríkisins. Tvöföldun veiðigjalds, hækkun fiskeldisgjalds og sérstakur skattur á skemmtiferðaskip munu eins og þau eru lögð upp hafa gríðarleg áhrif til hins verra á auðlindadrifið útflutningshagkerfi Vestfjarða. Þessir þættir, auk kílómetragjalds, kolefnisgjalds og óvissu í tengslum við flug til Ísafjarðar eru til þess fallnir að draga úr samkeppnishæfni atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
70. Fjórðungsþing að vori hvetur stjórnvöld til að endurskoða þessi áform og draga þannig úr þeirri óvissu sem framlögð fjármálaáætlun hefur skapað á Vestfjörðum. Boðaðar mótvægisaðgerðir eru enn óútfærðar og fyrirsjáanleiki að auknum tekjum ríkisins verði ráðstafað í uppbyggingu í þágu Vestfirðinga ekki til staðar.