Kokkanemar úr Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi lögðu í vikunni leið sína á Bíldudal þar sem þeirra beið það spennandi verkefni að reiða fram dýrindis kræsingar úr vestfirskum laxi. Það var Arnarlax sem stóð fyrir viðburðinum, bæði til að kynna fyrir hinum ungu matreiðslumönnum hráefni sitt og kynna fyrir heimafólki þann gæðamat sem má gera úr því.
Nemunum, sem allir eru á öðru ári við skólann, var skipt í þrjá hópa og var þeim ætlað að gera bæði forrétti og aðalrétti úr laxinum. Allir höfðu sama hráefni úr að moða en það mátti meðal annars nota kartöflur, epli, púrrulauk, brokkólí, agúrkur og dill. Til veislunnar var boðið veitingamönnum af svæðinu, sveitastjórnum og forsvarsmönnum fyrirtækja. Þeirra, auk tveggja kennara frá skólanum, beið svo hið vandasama verk að velja sigurréttina. Guðrún Anna Finnbogadóttir var á staðnum fyrir hönd Vestfjarðastofu og segir hún það hafa verið ærið verk, enda hver rétturinn öðrum betri – en allir afar góðir. Það hafðist þó að lokum og fékk sigurliðið að launum skurðarbretti með útskornu merki Arnarlax og úrvals hnífa sem eiga eflaust eftir að nýtast þeim vel á þeim starfsvettvangi sem það hefur markað sér.
Við hjá Vestfjarðastofu höfum ánægju af því að taka þátt í viðburðum sem eiga sér stað á svæðinu að frumkvæði vestfirskra fyrirtækja. Við hvetjum því fólk til að vera ekki feimið við að bjóða okkur með eða segja okkur frá því þegar eitthvað skemmtilegt er um að vera.