Fara í efni

Umhverfismálin í brennidepli

Fréttir

Umhverfismál eru þau málefni sem vega hvað þyngst í verkefnum sveitarfélaga á Íslandi nú til dags. Á Vestfjörðum hafa þau lengi verið ofarlega á lista og sá hugur sem endurspeglast hefur á Fjórðungsþingum Vestfirðinga sýnt að vilji sveitarstjórnarfólks á svæðinu stendur til þess að Vestfirðir verði sjálfbærir á sem flesta lund. Í ljósi þessa hefur til að mynda verið ráðinn verkefnisstjóri umhverfis- og loftslagsmála til Vestfjarðastofu sem þegar er sestur við störf í þessum víðfema og sífellt meira aðkallandi málaflokki.

Á 68. Fjórðungsþingi Vestfirðinga að hausti var beint tilmælum um gerð loftslagsstefnu fyrir svæðið til Fjórðungssambandsins. Stefnan verður hluti af væntanlegu svæðisskipulagi og markar meginstefnu og sýn til framtíðar í umhverfis- og byggðamálum Vestfirðinga. Forsögu þessa má rekja allt aftur til ársins 2012 er bundið var í lög að sveitarfélög skyldu gera loftslagsáætlanir. Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa til þessa reynt að mæta þessari kröfu t.d. í gegnum skuldbindingar Earth Check umhverfisvottunarkerfisins, en nú á sinna þessu með beinni hætti svo vinna megi að markmiðum um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Nátengt þessu er vinna við svæðisáætlun um úrgang á Vestfjörðum. Fyrr á árinu tóku í gildi lög um meðhöndlun úrgangs hjá sveitarfélögum. Í þeim felst að heimilum og fyrirtækjum er skylt að flokka heimilisúrgang. Einnig þurfa sveitarfélög að standa skil á sérstakri söfnun á fleiri úrgangstegundum en verið hefur, svo sem lífrænum úrgangi, textíl og spilliefnum. Lögin kveða enn fremur á um framlengda framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir, ýmsar plastvörur og veiðarfæri sem innihalda plast.

Með svæðisáætlun er því ætlunin að minnka úrgang og lágmarka förgun. Hún gefur kost á auknu samstarfi sveitarfélaganna sem geta í sameiningu tekið ákvarðanir varðandi úrgangsmál svæðisins. Þannig mætti fara sameiginlega í uppbyggingu á innviðum og útboð í framkvæmd úrgangsmála.