Á nýafstöðnu Fjórðungsþingi Vestfirðinga var samþykkt að gera breytingar á samþykktum Fjórðungssambands Vestfirðinga á þá leið að við þær bætist ný grein um ungmennaráð og ungmennaþing. Þar kveður á um að á hverju hausti skuli haldið ungmennaþing á vegum sambandsins þar sem meðal annars væri kjörið í ungmennaráð Vestfjarða til eins árs í senn. Ráðið skal skipað 13-18 ára ungmennum úr öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum þar sem slík búa. Því er ætlað að styrkja rödd unga fólksins á svæðinu og vera ráðgefandi fyrir stjórn FV.
Síðasta haust fór fyrsta ungmennaþingið fram í Bjarnarfirði á Ströndum og þar var fyrsta ungmennaráðið skipað og komu fulltrúar þess þau Soffía Rún Pálsdóttir frá Ísafjarðarbæ, Andrés Páll Ásgeirsson frá Tálknafjarðarhreppi og Ali Murtadah Kamil Jasim Sultan AL-Saedi frá Súðavíkurhreppi inn á fjórðungsþingið að kynna tillöguna, auk þess að fylgjast með hvernig störfum þingsins væri háttað. Ungmennin svöruðu einnig fyrirspurnum úr sal og var alveg ljóst að þeim var mikið í mun að raddir þeirra heyrðust og tekið væri mark á unga fólkinu sem innan tíðar yrði fullorðið og fengi þá að takast á við afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar væru hverju sinni.