Úthlutað hefur verið úr Lóu – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina. 21 verkefni hlutu styrk í ár og var úthlutað tæpum 100 m.kr. Alls bárust 100 umsóknir um styrki en hlutverk er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni.
Þrjú verkefni frá Vestfjörðum hlutu styrki að samtals upphæð 24.825.000 kr. sem eru rúm 24% af úthlutuðum styrkjum.
Sjótækni hf. fékk styrk upp á 12.500.00 kr. fyrir verkefnið StaðarOrka en verkefnið hefur það að markmiði að kanna nýtingu straumrasta eða sjávarfalla á Vestfjörðum í eða nærri vegamannvirkjum í þveruðum fjörðum til framleiðslu raforku
Þörungamiðstöð Íslands fékk 8.100.000 kr. styrk fyrir undirbúning og rammaáætlun Þörungamiðstöðvar Íslands. Þörungamiðstöð Íslands er nýstofnað rannsóknar- og þróunarsetur um stórþörunga á Reykhólum.
Einnig fékk Blámi félagasamtök í samstarfi við Vestfjarðastofu styrk upp á 4.225.000 kr. fyrir verkefnið Nýsköpunar-sprotar á Vestfjörðum. Verkefnið er ætlað að byggja upp og hlúa að vænlegum nýsköpunarsprotum á Vestfjörðum. Lögð verður áhersla á verkefni sem tengjast hugmyndafræði hringrásarhagkerfis og nýtingu grænna orkugjafa.