Rétt í þessu lauk í Bolungarvík 68. Fjórðungsþingi Vestfirðinga að hausti. Þingið var vel sótt, en mætt var fyrir yfir 90% sveitarstjórnarfólks á svæðinu. Þingið stóð í tvo daga og á föstudag sóttu það meðal annars Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Yfirskrift þingsins að þessu sinni var umhverfi og ímynd Vestfjarða og var fjallað um þau mál út frá ýmsum sjónarhornum í framsöguerindum frummælenda. Þar tóku til máls Guðlaugur Þór Þórðarson sem fjallaði um áskoranir Íslands í lofslagsmálum, ofanflóðasjóð, byggðaþróun og orkumál. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, fjallaði um vestfirska efnahagsundrið og lagði fram hugmyndir um samgöngusáttmála á Vestfjörðum og Björgvin Sævarsson, framkvæmdastjóri Yorth Group fjallaði um græna hringrásarhagkerfið og verkefni fyrirtækisins við hringrásarsamfélag á Reykhólum. Þá voru með erindi tveir nýir verkefnastjórar Vestfjarðastofu, þau Hjörleifur Finnsson sem fjallaði um umhverfis- og loftslagsmál og Anna Sigríður Ólafsdóttir sem fjallaði um ímynd Vestfjarða. Frummælendur sátu svo í pallborði þar sem fram fóru kraftmiklar umræður um umfjöllunarefni.
Fjórðungsþing að þessu sinni og var það haldið í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Á föstudag var þinggestum boðið í heimsókn í fyrirtæki í Bolungarvík. Farið var í nýtt laxasláturhús Arctic Fish, stórendurbætta hátæknifiskvinnslu Jakobs Valgeirs ehf. og Verbúðina sem er nýjasta öldurhúsið á norðanverðum Vestfjörðum.
Samþykktar voru 14 ályktanir, ein breyting á samþykktum, ásamt fjárhags- og starfsáætlun 2024.
Á mánudag verður hægt að nálgast erindin hér á heimasíðu Vestfjarðastofu, auk þess sem gerð verður grein fyrir einhverjum þeirra ályktana sem samþykktar voru, en þær verður jafnframt allar hægt að sjá hér á síðunni í dag.