Í gær hófst VestNorden ferðakaupstefnan í Laugardalshöll og er hún einnig í fullum gangi í dag. Okkar fólk, Sölvi Guðmundsson og Sigríður Kristjánsdóttir eru á staðnum fyrir hönd Markaðsstofu Vestfjarða að breiða út fagnaðarerindi Vestfjarða sem áfangastaðar ferðafólks á leið um Ísland. Í ár er von á 500 erlendum gestum á VestNorden og því nægu að snúast hjá okkar fólki. Einnig eru á staðnum vestfirskir ferðaþjónar frá Vesturferðum, Westfjords Adventures, Fantastic Fjords, Borea Adventures og Harbour Inn.
Að kaupstefnunni standa NATA, ferðamálasamtök Norður-Atlantshafs. Þar leiða saman hesta sína Íslendingar, Grænlendingar og Færeyingar og kynna það sem er að gerast í ferðaþjónustu innan landanna þriggja. Kaupstefnan fer þannig fram að ferðaþjónustuaðilar hafa sýningarbása þar sem hægt er að kynna sér starfsemi þeirra, auk þess sem eru haldnir stuttir viðskiptafundir. Ferðakaupstefnan er með þeim elstu hér á landi en hún hefur verið haldin frá árinu 1986 og er hún á Íslandi annað hvert ár, en hitt árið er hún haldin til skiptis í Færeyjum og á Grænlandi.