Fara í efni

Vestfirðir, samgöngur og ferðaþjónusta til umfjöllunar á Alþingi

Fréttir

Á Alþingi í gær, 9 apríl 2018, fór fram sérstök umræða um dreifingu ferðamanna um landið. Upphafsmaður umræðunnar var þingmaður NA kjördæmis Líneik Anna Sævarsdóttir. Í umræðunni var rætt um hvaða aðgerðir hið opinbera getur nýtt til að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið svo öll landssvæði geti notið góðs af þessari vaxandi atvinnugrein.

Til andsvara var ráðherra ferðamála Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir sem kom meðal annars inn á eflingu Markaðsstofa landshlutanna (MAS) sem að hennar mati sinna lykilhlutverki í samræminu markaðsstarfs og vöruþróunar í landinu. Jafnframt kom ráðherra inn á mikilvægi samvinnu Íslandsstofu og MAS svo hægt sé að ná settum markmiðum stjórnvalda um dreifingu ferðamanna um landið allt.

 

Það er þó enn óljóst hver á að fjármagna erlenda markaðssetningu landshlutanna en hún hefur nýlega verið dregin út úr samningum MAS og Ferðamálastofu, en Ferðamálastofa fer með samninga stjórnvalda við Markaðsstofur landshlutanna.

Þingmaður NA kjördæmis Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kom í ræðu sinni sérstaklega inn á nýútkomna þolmarkaðgreiningu ferðaþjónustunnar en bað ráðherra að huga einnig af þeim svæðum þar sem ekki er nægur fjöldi ferðamanna með markaðssetningu þeirra svæða. Albertína kom einnig inn á samninga MAS við Ferðamálastofu en líkur benda til að aðeins tveir þriðju þess fjármagns sem ætlað var til eflingar MAS komi til eflingar Markaðsstofanna og verkefna sem sett eru í forgang á hverju svæði. Enn fremur kom Albertína inn á þá staðreynd að ekki væri lengur sett fjármagn til MAS til markaðssetningar erlendis og því sitja landssvæðin við mikla misskiptingu þar sem ekki öll svæði séu með mörg, stór ferðaþjónustufyrirtæki sem geti lagt pening í sjóði til markaðssetningar.

 

Þingmaður Suðurkjördæmis Birgir Þórarinsson kom inn á nauðsyn góðra samgangna til dreifingar ferðamanna. Tók hann þar Vestfirði sem dæmi enda Vestfirðir mikil náttúruperla sem þó hefur orðið út undan í dreifingu ferðamanna. Það er nauðsynlegt að innviðir fylgi áætlunum til dreifingar ferðamanna, og nefndi þingmaðurinn t.d. Dýrafjarðargöng sem mikilvæga samgöngubót.

 

Þingamaður Suðurkjördæmis Ari Trausti Guðmundsson tók undir með Birgi Þórarinssyni um nauðsyn uppbyggingar innviða til þess að hægt væri að dreifa ferðamönnum um landið. Ari Trausti lagði janframt áherslu á kynningarmál og fannst það skjóta skökku við að Markaðsstofur landshlutanna væru ekki nægilega fjármagnaðar til að sinna þessu hlutverki.

Þingmaður SV kjördæmis Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók einnig til máls og fjallaði um nauðsyn þess að bæta flugaðgengi að norðanverðum Vestfjörðum. Þorgerður hvetur ráðherra til að eiga samtala við Samgönguráðherra til að fara strax í skoðun á nýju flugvallastæði fyrir Ísfirðinga og Vestfirðinga til að tryggja betri flugsamgöngur á Vestfjörðum. Þorgerður kom einnig inn á vegasamgöngur Vestfjarða og tilgreindi þar sérstaklega veginn um Teigsskóg og veginn yfir Dynjandisheiði.

Þingamaður NV kjördæmis Halla Signý Kristjánsdóttir tók til máls og tók undir með öðrum þingmönnum um nauðsyn uppbyggingar innviða en kom einnig inn á nauðsyn vetrarþjónustu. Halla Signý dró einnig athygli að þeim landssvæðum sem liggja ekki við hringveginn og nauðsyn þess að byggja upp traustar vegasamgöngur þar.

 

 

 

Ráðherra ferðamála tók aftur til máls til að svara þeim fyrirspurnum sem fram komu. Kom ráðherra þar sérstaklega inn á efasemdir þingmanns um að allt það fé sem ætlað sé til Markaðsstofanna renni til eflingar MAS og vildi hún fullvissa þingmann NA kjördæmis um að allt það fé sem á að renna til MAS gerir það en það sé rétt að samningar hafi ekki náðst en að hún bindi vonir við að það gangi fljótlega.

Umræðurnar á Alþingi voru mjög góðar og gott að sjá að málefni Vestfjarða varðandi flug- og vegasamgöngur og dreifingu ferðamanna eru ekki einkamál þingmanna svæðisins heldur fjölmargra annarra þingmanna þvert á flokka og kjördæmi.

 

Hér má finna link á umræðurnar.