Fara í efni

Vestfirskar ævintýraferðir fá afhenta rafmagnsrútu

Fréttir

Vestfirskar ævintýraferðir á Ísafirði fengu í dag nýja og glæsilega rafmagnsrútu af gerðinni Mercedes-Bens frá Öskju. Gestum var boðið að skoða glæsikerruna í tilefni komu hennar á Ísafjörð. Rútan sem er 19 sæta mun sinna almenningssamgöngum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og er þetta fyrsta rafmagnsbifreiðin í almenningssamgöngum utan höfuðborgarsvæðisins að sögn Þorsteins Mássonar, framkvæmdastjóra Bláma.

Blámi hefur verið Vestfirskum ævintýraferðum innan handar við þetta skref fyrirtækisins í orkuskiptum í samgöngum og segir Þorsteinn frábært að á Vestfjörðum skuli vera stigið þetta stóra og metnaðarfulla skref við rafvæðingu almenningssamgangna. Bindur hann vonir við að fleiri fyrirtæki taki af skarið og rafmagnsvæði farartæki og annan búnað í ekki of fjarlægri framtíð.

Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Blámi vill ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum. Hafi fyrirtæki á Vestfjörðum hug á verkefnum í orkuskiptum bendir Þorsteinn á að Blámi sé boðinn og búinn að veita ráðgjöf og þjónustu.