Ekki er blöðum um það að fletta að talsverður styr hefur staðið um fiskeldi á Vestfjörðum upp á síðkastið. Á 68. Fjórðungsþingi Vestfirðinga kom fiskeldi við sögu með margvíslegum hætti. Þar var hörmuð sú staða sem upp er komin eftir það óásættanlega atvik sem slysaslepping úr laxeldiskví í Patreksfirði var fyrir atvinnugreinina og samfélögin á Vestfjörðum og þörf væri á skjótum viðbrögðum að hálfu stjórnvalda.
Á þinginu var samþykkt ályktun um lagareldi þar sem skorað er á stjórnvöld að auka fjármagn til rannsókna á áhrifum fiskeldis á lífríkið og til miðlunar fræðslu um umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis á Íslandi. Í umræðum á þinginu mátti heyra að sú fjölmiðlaumfjöllum sem verið hefur upp á síðkastið drægi ekki upp raunsanna mynd af fiskeldi, jafnframt því sem hún undanskildi gríðarmikilvægan þátt – raddir íbúa Vestfjarða sem eiga mikið undir því að þessi atvinnugrein haldi áfram að dafna. Í ályktuninni kemur fram að með sjókvíeldinu hafi orðið algjör viðsnúningur í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum. Byggðir sem áður töldust vera deyjandi samfélög eru nú farnar að blómstra og bjartari framtíð blasir við íbúum Vestfjarða.
Telur þingið jafnframt að opinber störf sem tengjast þjónustu og eftirliti með sjókvíaeldi skulu vera þar sem starfsemin fer fram og uppbygginu starfa við eftirlit og rannsóknir í nærumhverfi lykilþátt í sjálfbærri uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Það er undrunarefni að mati þingsins, að í meginhluta starfsauglýsinga frá Hafrannsóknarstofnun og Matvælastofnun á undanförnum vikum að störf er tengjast fiskeldi, rannsóknum og eftirliti eru ekki staðsett á fiskeldissvæðum heldur óstaðbundin.
Fjórðungsþingið fagnar framkomnum drögum að nýrri stefnumótun lagareldis að hálfu matvælaráðherra og samþykktu strandsvæðaskipulagi, þar sem fram kemur að framtíðaruppbygging í lagareldi skuli byggð á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla á eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ítrustu kröfur til að koma í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni.
Um árabil hafa sveitarstjórnarfulltrúar á Vestfjörðum kallað eftir haldbærum aðgerðum þegar kemur að fiskeldi. Telur þingið það aðgerðarleysi sem ríkt hefur orsakað að uppbygging eftirlits og rannsókna í nærumhverfi atvinnugreinarinnar sé ábótavant og að skýr stefna hafi ekki verið mótuð fyrr en nú. Afleiðingar aðgerðaleysis hafa nú mjög neikvæð áhrif á umhverfi og ímynd Vestfjarða.
Jafnframt samþykkti Fjórðungsþing Vestfirðinga ályktun um skiptingu gjalds vegna fiskeldis í sjó. Þar er skorað á stjórnvöld að taka til endurskoðunar tekjuskiptingu af gjaldi vegna fiskeldis í sjó með það að markmiði að auka þá hlutdeild sem rennur til fiskeldissveitarfélaga í gegnum Fiskeldissjóð.