Vörumessa Menntaskólans á Ísafirði var haldin á Vestfjarðastofu fimmtudaginn 3. apríl. Á vörumessunni kynna nemendur í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun vörur sem þau hafa hannað, þróað og skapað í föstu formi fyrir gestum og gangandi. Mikið líf og fjör á Vestfjarðastofu þennan dag, því fjölmargir lögðu leið sína á Vörumessuna til að sjá nýsköpunarvarning ungmennanna. Unnið var að vöruþróuninni í hópum og voru 11 nýjar vörur kynntar. Vörurnar voru afar fjölbreyttar og margt spennandi að sjá hjá frumkvöðlunum, sem sumir hverjir höfðu leitað samstarfs við starfandi fyrirtæki á svæðinu með góðum árangri.
Fimm manna dómnefnd fór um og skoðaði vörurnar, básana og ræddi við nemendurna um vöruþróunina. Dómnefndina skipaði: Anna Sigríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu, Dóra Hlín Gísladóttir hjá Kerecis, Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, hönnuður og Netagerðarstjóri, Snævar Sölvi Sölvason, kvikmyndagerðarmaður og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Viðurkenningar voru veittar í lok vörumessunnar, í þremur flokkum.
Grænasta hugmyndin var metin út frá umhverfisáhrifum, endurvinnsla og hagsýni í nýtingu efna og hlaut þessa viðurkenningu verkefnið Blöð framtíðar. Vasilía Rós Jóhannsdóttir og Kristjana Rögn Andersen þróuðu hugmyndina sem gekk út á að endurvinna pappír til að nota í bæklinga, skissubækur o.fl.
Áhugaverðasti básinn tók mið af hönnun og útliti bássins, uppstillingu afurðar auk framkomu nemenda. Varð Gyðja, handlóð sem er líka heimilis-skraut, fyrir valinu. Bríet María Ásgrímsdóttir, Jade Filipa da Silva Rosa, Jóhanna Wiktoria Harðardóttir og Katla Salome Hagbarðsdóttir unnu verkefnið.
Bjartasta vonin var sú hugmynd sem álitin var líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu. Verkefnið Gaddur var hlutskarpast og áttu hugmyndina Hákon Ari Heimisson, Pétur Örn Sigurðsson, Sverrir Bjarki Svavarsson og Þorbjörn Jóhann Helgason. Gaddur er „Ís með karakter – skemmtilegir bragðmöguleikar sem gleðja bragðlaukana!“ og var hugmyndin þróuð í samvinnu við mjólkurvinnslu Örnu. Gaddur er með heimasíðu og vefverslun.
Mikil ánægja var með viðburðinn hjá öllum sem að honum komu og fá mennskælingarnir sérstakt hrós fyrir einstaklega góðar kynningar. Framtíð nýsköpunar á Vestfjörðum er björt með þessa ungu frumkvöðla í startholum þess að skapa nýjar vestfirskar vörur sem aldrei er að vita nema rati á endanum úti á markaðinum.
Myndirnar tók Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun í MÍ. Umfjöllun um verkefnin sem hlutu viðurkenningar er fengið úr frétt MÍ um Vörumessuna.