Fundagerð stækkaðar samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga, haldinn þann 16. Desember 2019 á Café Riis, á Hólmavík, kl 11.00.
Iða Marsibil Jónsdóttir, formaður samgöngunefndar FV, kynnti að til fundarins væri boðað samkvæmt samþykkt stjórnar FV þann 3. Desember 2019, eða sem hér segir.
Stjórn samþykkir tillögu um skipan stærri samgöngunefnda með aðild stjórnar FV og fulltrúum Árneshrepps og Kaldrananeshrepp sem ekki eiga fulltrúa í samgöngunefnd eða stjórn FV. Hlutverk nefndarinnar verði gerð Samgönguáætlunar Vestfjarða þar sem lagt er til grundvallar ályktanir 4. Haustþings Fjórðungssambands Vestfirðinga um stofnun vinnuhóps, um samgöngumál og um jarðgangaáætlun.
Farið yfir mætingu á fundinn. Mætt voru Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð og formaður samgöngunefndar FV og í stjórn FV, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Reykhólahreppi og í stjórn FV, Jón Gísli Jónsson, Strandabyggð og í samgöngunefnd FV, Finnur Ólafsson, Kaldrananeshreppi, Sigurður Hreinsson, Ísafjarðarbæ og samgöngunefnd FV og í stjórn FV, Kristján Jón Guðmundsson, Bolungarvíkurkaupstað og í stjórn FV. Auk þeirra sat fundinn Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri Vestfjarðastofu sem ritaði fundargerð.
Í fjarfundi voru Hafdís Gunnarsdóttir, Ísafjarðarbæ og formaður stjórnar FV, Bjarnveig Tálknafjarðarhreppi og samgöngunefnd FV og Eva Sigurbjörnsdóttir, Árneshreppi.
Iða Marsibil kynnti að Steinn Ingi Kjartansson, Súðavíkurhreppi og í samgöngunefnd FV væri forfallaður og í hans stað væri mættur Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Eins hefðu Hafdís, Bjarnveig og Eva óskað eftir að vera í fjarfundi og gætu ekki setið allan fundinn vegna anna.
Dagskrá fundarins
1. Tillaga um gerð Samgönguáætlunar Vestfjarða 2020-2034
a. Umfang
b. Fjármögnun
2. Sjónarmið sveitarfélaga á Vestfjörðum til samgöngumála 2020-2034
3. Umsögn Samgönguáætlun 2020-2034 og 2020-2024
4. Skipulag vinnu fram í júní
Iða Marsibil gerði tillögu um að færa 1. lið á dagskrá fundarins til umræðu með 4. lið.
2. Sjónarmið sveitarfélaga á Vestfjörðum til samgöngumála 2020-2034
Vesturbyggð; hröð uppbygging fiskeldis hefur stóraukið álag á vegi og hafnir. Vegakerfið stenst ekki lengur þetta álag og þá sérstaklega fjallvegir. Framkvæmdir við Bíldudalsveg munu létta á stórum hluta þungaflutninga auk styttingu á vega. Samfélag og atvinnulíf gera eindregna kröfu um að þessari framkvæmd verði flýtt því ella geti komið bakslag í þróun svæðisins. Nú þegar skilar svæðið miklum tekjum og þær fara vaxandi og flýting framkvæmda mun einungis auka hagræði og skila tekjuauka fyrr en ella.
Hafnarframkvæmdir eru komnar á áætlun en æskilegt væri að auka við fjármagn til verkefna til að flýta þeim.
Til lengri tíma litið þarf að bæta samgöngur á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Horfa verður til jarðgangaframkvæmda í þeim efnum í stað þess að endurbyggja fjallvegi og svara þannig kröfum nútímasamfélaga.
Lýst er áhyggjum af tímasetningu framkvæmda í Gufudalssveit, þar sem sporin hræða og þolinmæðin gagnvart frekari seinkunum er á þrotum.
Lýst er stuðningi við flýtingu framkvæmda á Veiðileysuhálsi.
Bolungarvík. Taka undir sjónarmið Vesturbyggðar um flýtingu framkvæmda sem munu auka tekjur ríkissjóðs og auka hagræði atvinnulífs og samfélaga. Nægir fjármunir ættu því að vera til að fara í framkvæmdir. Lýst er einnig stuðningi við flýtingu framkvæmds á vegi um Veiðileysuháls
Mótmælt er hugmyndum um gjaldtöku í jarðgöngum á Vestfjörðum. Gjaldtaka er ekki réttlætanleg nema til sé valkostur á fleiri leiðum til sama áfangastaðar.
Strandabyggð. Uppbygging Innstrandavegar er megináherslan. Þar þarf að setja strax í framkvæmd, að setja bundið sliltlag á þann stutta vegkafla milli Heydals og Þorpa í Steingrímsfirði og efla þannig vinnusóknarsvæði og auka öryggi. Taka verði fjármagn til þessa verkefnis af öðrum verkefnum ef ekki tekst að auka við fjárveitingar. Sett verði síðan á langtímaáætlun endurbætur vegköflum með óbundnu slitlagi á Innstrandavegi.
Kaldrananeshreppur. Endurbyggja þarf veg um Nesströnd þ.e. frá Drangsnesi og inn í Bjarnafjörð og skapa þar áhugaverðan hring fyrir ferðamenn. Afnema þarf G reglu varðandi snjómokstur um Bjarnafjarðarháls en endurbætur á þeim vegi nýtast ekki vegna þjónustuleysis en þess í stað er mokstur um Nesströnd og sveitarfélagið er krafið um helmingamokstur ef moka eigi um Bjarnafjarðarháls. Hér spilar einnig inn í rekstarhalli á vetrarþjónstu Vegagerðarinnar sem stjórnvöld vilja ekki bæta og því þarf að grípa til niðurskurðar og þetta er ein birtingarmynd þess. Styður aðrar hugmyndir sem hafa komið fram í umræðunni.
Reykhólahreppur. Stærsta verkefnið er endurbætur á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Næstu daga er von á umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi í framhaldi af aðalskipulagsbreytingu. Sveitarstjórn mun síðan fjalla um umsóknina m.a. um tímasetningu verkáfanga og þar er vilji til að setja skilyrði að framkvæmdir hefjist með þverun Þorskafjarðar, enda þar mesta stytting leiðarinnar. Hugmynd Vegagerðar er að hefja framkvæmdina með þverun Gufufjarðar.
Önnur mál varðar yfirfærslu vegar út í Karlsey frá Vegagerðinni um áramót,en enginn útekt liggur fyrir og vonandi verði því máli frestað. Hafnarframkvæmdir í Flatey, þar sem sveitarfélagið keypti efni til endurbóta á bryggjunni í Flatey nú í apríl, en ekkert bólar á útboði hálfu Vegagerðarinnar. Mjög brýnt er að framkvæmdin fari af stað vegan öryggis farþega.
Árneshreppur. Frummatsskýrsla umhverfismats framkvæmdarinnar um Veiðileysuháls væri nú kominn fram og málið því loks komið á rekspöl og er fagnaðarefni, en erfitt væri að sætta sig við að sveitarfélögin á Vestfjörðum væru að bítast um fjármagn sem stjórnvöld skömmtuðu.
Krefjast þarf að hraða framkvæmdum við gerð jarðgangna á vestanverðum Vestfjörðum. Styðja framkvæmdir á Innstrandavegi sem og önnur verkefni sem nefnd hafa verið á fundinum.
Súðavíkurhreppur. Að á næsta tímbili samgönguáætlunar 2020-2034 komist Álftafjarðargöng á dagskrá. Unnið væri að úrbótum á vegi um Súðavíkurhlíð og eykur það öryggi vegfarenda en verður ekki endanleg lausn á öryggi vegfarenda. Mikil umferð er um veginn á degi hverjum og allir þungaflutningar til og frá norðanverðum Vestfjörðum fara þar um.
Lýst er stuðningi við kröfur um framkvæmdir á Vestfjörðum sem nefndar hafa verið fyrr á fundinum s.s. Bíldudalsvegi.
Ísafjarðarbær. Leggur áherslu á uppbyggingu vegar um Dynjandisheiði til að tengja sunnan og norðaverða Vestfirði og að Álftafjarðargöng komist á áætlun. Leggja áherslu á að hefja gerð Samgönguáætlunar fyrir Vestfirði og þar með tekið saman í einni heild hafnir, flug, vegir, almenningssamgöngur. Eins megi flétta saman fleiri innviðamálum t.d. sameina jarðgöng og flutningsmál raforku.
Tálknafjörður. Leggur áherslu á hafnarmál og styður þau mál sem nefnd hafa verið á fundinum.
Almennt. Af umræðu á 4. Haustþingi FV í lok október s.l. má skilja að stjórnvöld hafi sett ákveðinn fjárhagsramma fyrir framkvæmdir á Vestfjörðum og þess krafist að verkefnum sé forgangsraðað. Það þýðir í raun, að svæði innan Vestfjarða munu þurfa að berjast um fjármagn sín á milli. Slíkt er ómöguleg staða og verður krefjast þess að stjórnvöld horfi á ólíkar forsendur framkvæmda, sem eru annars vegar framkvæmdir til að mæta vexti og uppbyggingu atvinnulífs en hins vegar samdráttur eða stöðnun í þróun byggðar.
Rædd voru sjónarmið um gjaldtöku í jarðgöngum eða á ákveðnum vegköflum. Slíkt gæti flýtt framkvæmdum og stóraukin umferð ferðamanna ylli álagi á vegakerfinu sem þeir yrðu að greiða fyrir. Mótrök í málinu væru oftar en ekki, væri um að ræða einu vegtengingu byggðarlags eða innan atvinnusvæðis og væri gjaldtaka þar íþyngjandi fyrir samfélög og atvinnulíf. Eins tæki ríkið nú þegar há gjöld af bifreiðum og eldsneyti og sem ættu að renna til samgöngumála en gerðu í minna mæli.
Hafdís vék af fundi kl 12.30.
3. Umsögn Samgönguáætlun 2020-2034 og 2020-2024. (skila 10. Janúar)
Aðalsteinn skýrði að skila yrði umsögn þann 10. Janúar n.k. um 5 ára og 15 ára samgönguáætlun. Fimm ára áætlunin væri framkvæmdaáætlun en fimmtán ára áætlunin væri stefnumörkun og tillögur að næstu verkefnum. Til grundvallar umsögninni væri ályktun 4. Haustþings FV og þau sjónarmiðs sem hefðu komið fram á fundinum í dag. Vandi við gerð umsagnar væru þau sjónarmið sem rædd voru almennt fyrr á fundinum um þann fjárhagsramma sem settur væri á verkefni á Vestfjörðum. Auka yrði skilning stjórnvalda að forsendur samgönguverkefna væru af ólíkum toga þ.e. að mæta vexti í samfélagi eða mæta stöðnun eða samdrætti.
Formaður gerði tillögu um að unnin verði umsögn á grunni ályktunar 4. Haustþings og umræðu á fundinum. Óskað verði eftir fundi með þingmönnum NV kjördæmis áður en umsögn væri skilað til Alþingis til að ræða fjárhagsramma og röðun verkefna.
Tillagan samþykkt.
Eva vék af fundi 13.20
1. Skipulag vinnu fram til júní og tillaga um gerð Samgönguáætlunar Vestfjarða 2020-2034
Lagðar fram ályktanir 4. Haustþings Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ályktun um samgöngumál. ályktun um uppfærða heildaráætlun jarðgangagerð á Vestfjörðum og ályktun um vinnuhóp. Í ályktun um samgöngumál eru tilgreindar áherslur í málaflokknum sem leggja á til grundvallar í umsögnum og stefnumótun. Í ályktun um heildaráætlun í jarðgangagerð er tilgreind nauðsyn á að meta jarðgangakosti á Vestfjörðum og forgangsröðun þeirra. Í ályktun um vinnuhóp er þeim hópi ætlað að kanna hug íbúa til þjónustu fyrir samfélögin og þar eru samgöngumál tilgreind sérstaklega.
Á grundvelli þessara ályktana kemur fram tillaga stjórnar um gerð Samgönguáætlunar fyrir Vestfirði.
a. Umfang
Rætt umfang samgönguáætlunar og kostnaðaráætlun. Kynnt að sækja mætti fyrirmynd í Samgönguáætlun Vesturlands og fleiri landshluta. Einnig kynnt hvernig staðið hafi verið að öryggisúttekt á vegum í öðrum landshlutum, sem unnar hafa verið að hálfu Ólafs Guðmundssonar, sérfræðings í umferðaröryggi. Mikilvægi öryggisúttektar væri ekki síst í ljósi vaxandi ferðaþjónustu og því margir ökumenn sem eru að aka vegi í fyrsta sinn og þekkja ekki aðstæður. Varðandi jarðgangaáætlun er ekki til sérstök fyrirmynd og leita verði til sérfærðinga á þessu sviði hvernig standa beri að mati á jarðgangakosti og forgangsröðun þeirra.
Samþykkt að vinna samgönguáætlun með fyrirmynd frá Vesturlandi og leitað verði samninga um öryggisúttekt og gerð jarðgangaáætlunar.
Rætt um að samgönguáætlun fjalli einnig um hafnir, flug og almenningssamgöngur, einnig verði samgönguáætlun tengd við umfjöllun um innviðamál s.s. uppbyggingu fjarskipta við þjóðvegi.
b. Fjármögnun
Samþykkt að leita eftir fjármagni í áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða. Sviðsstjóra falið að leita tilboða í öryggisúttekt og jarðgangaáætlun og vinna kostnaðaráætlun út frá því eins að gera tilllögu að vinnuframlagi að hálfu FV.
4. Skipulag vinnu fram til júní.
Dagsetning fundar með þingmönnum rædd nánar og samþykkt að leita eftir fundi þann 8. Janúar n.k.. Skipulag annarrar vinnu ráðist í framhaldinu og hvernig fjármögnun tekst. Nýr fundur boðaður í apríl en unnið í gegnum tölvupóst, í Teams og með fjarfundum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15.15.
Aðalsteinn Óskarsson. v