Fara í efni

Fundargerð 15. fundar stjórnar Vestfjarðastofu

08.04.2019 14:00

15. fundur stjórnar Vestfjarðastofu haldinn í fjarfundi og á skrifstofu Vestfjarðastofu mánudaginn 8. apríl kl 14.00.

Mætt voru á skrifstofu:  Hafdís Gunnarsdóttir formaður, Kristján Jón Guðmundsson, Kristján G Jóakimsson, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Sigurður Hreinsson. 

Í fjarfundi voru: Iða Marsibil Jónsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ágústa Ýr Sveinsdóttir og Víkingur Gunnarsson. Auk þeirra sátu fundinn Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar sem einnig ritaði fundargerð.

Formaður setti fundinn og kynnti boðaða dagskrár.

  1. Fundargerð 14. fundar stjórnar
  2. Starfsmannamál - endurskoðun samþykktar síðasta fundar
  3. Staða verkefna - fyrsti ársfjórðungur
  4. Endurskoðun Sóknaráætlunar Vestfjarða
  5. Ársfundadagur 10. maí 2019 - til umræðu
  6. Framkvæmdastjórn Vestfjarðastofu
  7. Sviðsmyndir - Vestfirðir 2035 kynning
  8. Námskeið - krísustjórnun og framkoma í fjölmiðlum - lagt fram til kynningar
  9. Kynning starfshóps um stöðu og hlutverk landshlutasamtaka
  10. Kynning á vinnu starfshóps um stefnumótandi tillögu um málefni sveitarfélaga
  11. Hringvegur 2 - tilboð ráðgjafa
  12. Önnur mál

Gengið til dagskrár.

  1. Fundargerð 14. fundar stjórnar
    Fundargerð 14. stjórnarfundar lögð fram til staðfestingar en hafði áður verið kynnt í tölvupósti. Fundargerð samþykkt.
  2. Starfsmannamál - endurskoðun samþykktar síðasta fundar
    Framkvæmdastjóri kynnti það álit sitt og formanns, að í ljósi fregna um frystingu framlaga Jöfnunarsjóðs 2020 og 2021 í Ríkisfjármálaáætlun 2020 -2024 að rétt sé að endurskoða samþykkt 14. fundar varðandi ráðningar í stöður á Patreksfirði og Ísafirði. Rætt um efni máls.  Formaður gerði tillögu;
    Auglýst verði ótímabundið stöðugildi verkefnastjóra á Patreksfirði en frestað verði auglýsingu stöðugildis verkefnastjóra á Ísafirði. Verkefnastjóri á Patreksfirði muni sinna verkefnum sem varða atvinnulíf og byggðaþróun á öllum Vestfjörðum.  Megináherslur í starfi verkefnastjóra verði á sviði sjávarútvegs og fiskeldis.
    Tillagan borinn upp og samþykkt.
  3. Staða verkefna - fyrsti ársfjórðungur
    Framkvæmdastjóri lagði fram ársfjórðungsyfirlit (jan-mars) á rekstri VFS eftir verkefnum og fór yfir tekjur og gjöld. Stjórnarmenn gerðu fyrirspurnir við stöðu einstakra verkefna og svaraði framkvæmdastjóri og sviðsstjóri eftir því sem átti við hverju sinni.
  4. Endurskoðun Sóknaráætlunar Vestfjarða
    Framkvæmdastjóri lagði fram minnisblað um framkvæmd á endurskoðun Sóknaráætlunar Vestfjarða, verkferlar og dagsetningu funda. Framkvæmdastjóri óskaði eftir staðfestingu á efni minnisblaðs.
    Formaður bar upp tillögu þess efnis og var tillagan samþykkt.
    Framkvæmdastjóri lagði fram endurskoðað tilboð frá Capacent um vinnu að endurskoðun Sóknaráætlunar Vestfjarða.  Framkvæmdastjóra óskaði eftir að semja um verkefnið á grundvelli tilboðs.  
    Tillagan samþykkt.
  5. Ársfundadagur 10. maí 2019 - til umræðu
    Lögð fram tillaga um dagsetningu ársfundar Vestfjarðastofu og 64. Fjórðungsþings Vestfirðinga þann 10. maí n.k., fundurinn yrði haldinn á Þingeyri. Auk þess hefur öðrum stofnunum innan Vestfjarða verðið boðið til samstarfs um að halda sameiginlegan ársfundadag. Fram kom að dagsetningin rekst á við viðburði á vegum atvinnulífs og óskað var eftir að kannað yrði hvort dagsetningu yrði hnikað, en til vara verði sérstök kynning verði á niðurstöðu sviðsmyndagreiningar. Framkvæmdastjóra falið að kanna málið og kynna síðan fundarboðið.
  6. Framkvæmdastjórn Vestfjarðastofu
    Formaður og framkvæmdastjóri kynntu hugmynd um að virkja 9. gr. samþykkta Vestfjarðastofu um stofnun framkvæmdastórnar sem færi með ásamt framkvæmdastjóra, með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn stofnunarinnar. Rætt um efni máls og samþykkt að vísa umræðu til næsta stjórnarfundar.
  7. Sviðsmyndir - Vestfirðir 2035 kynning
    Framkvæmdastjóri kynnti drög að greinargerð um sviðsmyndagreiningu Vestfjarða 2025. Umræðu frestað til næsta fundar.
  8. Námskeið - krísustjórnun og framkoma í fjölmiðlum - lagt fram til kynningar
    Framkvæmdastjóri kynnti efni námskeiðs um krísustjórnun fyrir forsvarsmenn sveitarfélaga.
  9. Kynning starfshóps um stöðu og hlutverk landshlutasamtaka
    Sviðsstjóri kynnti efni fundar landshlutasamtaka sveitarfélaga þann 28. mars s.l., þar sem kynnt vinna starfshóps samgöngu og sveitarstjórnarráðherra um stöðu og framtíðarhlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga.  Fyrirhugað er að funda með stjórnum landshlutasamtaka í maí n.k.. Vinnutillaga að dagsetningu fundar með stjórn Vestfjarðastofu er 9. maí n.k..
  10. Kynning á vinnu starfshóps um stefnumótandi tillögu um málefni sveitarfélaga*
    Sviðsstjóri kynnti efni fundar landshlutasamtaka sveitarfélaga þann 28. mars s.l. þar sem kynning var á vinnu er varðar framtíðarskipan sveitarfélaga á Íslandi. Vinnan er unnin að hálfu starfshóps sem skipaður af samgöngu og sveitarstjórnarráðherra sbr. ákvæði reglugerðar nr. 1245/2018, 17. desember 2018, um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga.
    Meginþáttur í vinnu starfshópsins hefur verið umræða um framtíðarskipan sveitarfélaga. Kynnt var að um miðjan apríl yrði lögð fram Grænbók sem grundvöllur fyrir umræðu um málið og stefnt væri að fundum með sveitarstjórnum í hverjum landshluta í maí n.k.. Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra stefndi síðan að leggja fram í haust þingsályktun um sveitarstjórnarstigið sem innihéldi 5 ára aðgerðaáætlun og stefnumörkun til 15 ára. Upplýst var á fundinum að haldið yrði Aukalandsþing sveitarfélaga á sama tíma til að ræða og taka afstöðu til efni þingsályktunarinnar. 
    Ingibjörg Benediktsdóttir, óskaði eftir að stjórn Vestfjarðastofu ályktaði um málið og gerði tillögu sem hér segir;
    Stjórn Vestfjarðastofu telur mikilvægt að ræða framtíðarskipan sveitarstjórnarstigsins og eflingu þess. Stjórn bendir á að það sem marka má af stefnu samgöngu og sveitarstjórnarráðherra í þessu máli, er að fámennustu sveitarfélögum verði fækkað. Stjórn Vestfjarðastofu harmar því að þessu verkefni koma ekki fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem varða málið hvað mest.
    Krefst stjórn Vestfjarðastofu að samgöngu og sveitarstjórnarráðherra breyti efni reglugerðarinnar og fjölgi fulltrúum í starfshópnum og þar verði skipaðir fulltrúar sveitarfélaga með 750 íbúa eða færri. Jafnframt krefst stjórn Vestfjarðastofu þess að Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi það sama í huga við val á sínum fulltrúum í starfshópinn.
  11. Hringvegur 2 - tilboð ráðgjafa
    Framkvæmdastjóri kynnti minnisblað um markmið og verkáætlun verkefnisins Hringvegur 2, stofnun vinnuhóps og stýrihóps og mati á tilboðum frá ráðgjöfum sem kæmu að framkvæmd þess.  Óskaði framkvæmdastjóri heimildar stjórnar um að ganga til samninga við ráðgjafa á grundvelli matsblaðs.
    Formaður gerði tillögu um heimild verði veitt. Tillagan samþykkt.
  12. Önnur mál
    Umsagnir til endanlegrar staðfestingar stjórnar;
    Umsögn um frumvarp til laga um endurskoðun ýmsa laga um fiskeldi, mál 647, 149. löggjafarþing. Umsögn send út til stjórnar í tölvupósti og óskast nú staðfest.
    Umsögn um frumvarp um gjaldtöku af fiskeldi, mál 710, 149. löggjafarþing. Umsögn send út í tölvupósti og óskast nú staðfest.
    Formaður bar upp tillögu um staðfestingu umsagna. Tillagan samþykkt.
    Lögð fram til kynningar skýrsla Ferðamálastofu frá því nú byrjun apríl. „Ferðaþjónusta í tölum – Wow air ferðamenn í samanburði við ferðamenn með öðrum flugfélögum“.
    Kynntar fundargerðir landshlutasamtaka sveitarfélaga frá janúar til byrjun apríl.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15.45.

 

* Starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga

SAMGÖNGU- OG SVEITARSTJÓRNARRÁÐUNEYTIÐ

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp, sbr. ákvæði nýsamþykktar reglugerðar um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga nr. 1245/2018. Starfshópurinn gerir tillögur til ráðherra að stefnumótandi áætlun til fimmtán ára í senn og aðgerðaáætlun til fimm ára. Við gerð tillagna að stefnumótandi áætlun og aðgerðaáætlun skal starfshópurinn eiga samráð við ráðuneyti og stofnanir ríkisins, þ.m.t. stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá skulu tillögurnar unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Loks skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum og skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

Skipunartími starfshópsins takmarkast við embættistíma ráðherra.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

  • Valgarður Hilmarsson, formaður, fyrrverandi sveitarstjóri Blönduósbæjar,
  • Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Akureyrarbæ,
  • Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði,
  • Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Með hópnum starfa Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála, Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur á skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.