Fara í efni

Fundargerð 16. fundar stjórnar Vestfjarðastofu

07.05.2019 14:00

16. fundur stjórnar Vestfjarðastofu haldinn á starfstöð á Ísafirði og í fjarfundi, kl 14.00 þriðjudaginn 7. maí 2019. Mætt voru í starfstöð á Ísafirði Hafdís Gunnarsdóttir, formaður, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Kristján Jón Guðmundsson og Sigurður Hreinsson. Í fjarfundi voru Ingibjörg Benediktsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir, Víkingur Gunnarsson og Ágústa Ýr Sveinsdóttir. Formaður kynnti að Kristján G Jóakimsson hefði boðað forföll og varamaður hans einnig.

Boðuð dagskrá var sem hér segir.

  1. Fundargerð 15. fundar stjórnar
  2. Stofnframlag AtVest í Fræðslumiðstöð Vestfjarða & tilnefning í fulltrúaráð
  3. Ársskýrsla Vestfjarðastofu
  4. Ársreikningur Vestfjarðastofu
  5. Ársfundur Vestfjarðastofu
  6. Önnur mál

Formaður setti fundinn og gengið var til dagskrár.

  1. Fundargerð 15. fundar stjórnar
    Fundargerð 15. fundar stjórnar lögð fram til endanlegrar samþykktar en hafði áður verið kynnt í tölvupósti. Rætt um bókun stjórnar í 10. lið fundargerðar Kynning á vinnu starfshóps um stefnumótandi tillögu um málefni sveitarfélaga. Samþykkt að setja neðanmálsgrein við dagskrárliðinn til upplýsingar um tilurð og samsetningu starfshópsins. Fundargerð samþykkt með áorðnum breytingum.
  2. Stofnframlag Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða í Fræðslumiðstöð Vestfjarða & tilnefning í fulltrúaráð
    Framkvæmdastjóri lagði fram tillögu um kaup á stofnframlagi Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða í Fræðslumiðstöð Vestfjarða kr 50.000,-.  Vestfjarðastofa taki þar með við hlutverki Atvinnuþróunarfélagsins er varðar fræðslumál atvinnulífs og samfélaga.  Tillagan samþykkt. 
    Framkvæmdastjóri kynnti fundarboð ársfundar Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða þann 9. maí n.k.. Með kaupum á hlut Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða þarf að skipa fulltrúa í fulltrúarráð Fræðslumiðstöðvar, tillaga er um Sigríði Ó Kristjánsdóttir og til vara Aðalstein Óskarsson.
    Tillagan samþykkt.
  3. Ársskýrsla Vestfjarðastofu
    Framkvæmdastjóri kynnti drög að ársskýrslu Vestfjarðastofu fyrir árið 2018, skýrslan verður sameiginleg ársskýrsla Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Rætt um efni ársskýrslu, engar athugsemdir komu fram og framkvæmdastjóra falið að ljúka ársskýrslu og leggja fyrir ársfund og fyrir 64. Fjórðungsþing Vestfirðinga. 
  4. Ársreikningur Vestfjarðastofu
    Framkvæmdastjóri lagði fram drög að ársreikningi fyrir árið 2018 og skýringar með honum. Endurskoðun er á lokastigum og því ekki hægt að leggja fram álit endurskoðanda á þessum fundi. Spurst fyrir um framkvæmd sérverkefna og fjármögnun þeirra.
    Afgreiðslu ársreiknings frestað til næsta stjórnarfundar sem boðaður verður þegar álit endurskoðanda liggur fyrir.
  5. Ársfundur Vestfjarðastofu
    Kynnt dagskrá ársfundar fyrir starfsárið 2018, fundurinn er haldinn á Þingeyri og hefst kl 15.00, sama dag verður haldið 64. Fjórðungsþing Vestfirðinga og árfundir Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks og Náttúrustofu Vestfjarða.
    Formaður kynnti tillögu um að stjórn leggi fyrir ársfund að Starfsháttarnefnd verði virkjuð til að starfa með væntanlegri milliþinganefnd um breytingar á samþykktum Fjórðungssambands Vestfirðinga. Tillagan samþykkt.
  6. Önnur mál
    Framkvæmdastjóri kynnti dagskrá stefnumótunarfundar fyrir Sóknaráætlun Vestfjarða. Yfirskrift fundarins er Krossgötur sem er um leið heiti skýrslu um Sviðsmyndir fyrir Vestfirði.  Fundurinn verður haldinn í Félagsheimilinu Bolungarvík þann 29. maí n.k..

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 15.00