Fara í efni

Fundargerð 20. fundar stjórnar Vestfjarðastofu

23.09.2019 14:00

20. fundur stjórnar Vestfjarðastofu haldinn á starfstöð á Ísafirði og í fjarfundi, kl 14.00

þriðjudaginn 24. september 2019.

Mætt voru í starfstöð á Ísafirði, Hafdís Gunnarsdóttir, formaður, Kristján G Jóakimsson, Kristján Jón Guðmundsson og Sigurður Hreinsson. Í fjarfundi voru  Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir,Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir og Víkingur Gunnarsson.  Auk þeirra sátu fundinn Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri í fjarfundi og Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri í starfsstöð á Ísafirði sem ritaði fundargerð.

Dagskrá

    1. Fundargerð 19. fundar stjórnar 
    2. Hálfsársuppgjör Vestfjarðastofu
    3. Fjárhagsáætlun 2020 – forsendur og ákvörðun um árstillag
    4. Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024
      a. Drög í umsagnarferli
      b. Samningur um Sóknaráætlun Vestfjarða
    5. Áherslur næstu úthlutunar Uppbyggingarsjóðs
    6. Haustþing
      a. Dagskrá og ályktanir
    7. b. Tillaga að samskiptaplani í aðdraganda Haustþings

 

      c. Milliþinganefnd
    1. Önnur mál
      a. Fjárlög 2020 - umsagnir
    2. b. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2019

 

      c. Kjördæmavika - fundur 30. September

 

      d. 70 ára afmæli Fjórðungssambands Vestfirðinga – 11. Nóvember

 

      e. Almannatengsl - stöðuskýrsla

 

Formaður setti fundinn og bauð Jóhönnu Ösp velkomna til starfa í stjórn. Jóhanna Ösp tekur nú við sæti Ingibjargar Benediktsdóttur í stjórn Vestfjarðastofu, en Ingibjörg óskaði lausnar frá störfum í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 12. ágúst s.l. og þar með samhliða í stjórn Vestfjarðstofu.

Gengið til dagskrár.

  1. Fundargerð 19. fundar, 12. ágúst 2019
    Fundargerð 19. fundar stjórnar VFS lögð fram. Fundargerði hafði áður verið kynnt í tölvupósti og er nú borinn upp til endanlegrar staðfestingar. Fundargerð samþykkt.
  2. Hálfsársuppgjör Vestfjarðastofu 
    Samkvæmt samþykkt 19. fundar lagði framkvæmdastjóri fram að nýju rekstaryfirlit fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní, en nú með greiningartré eftir deildum.
    Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu verkefna og svaraði fyrirspurnum m.a. að hluti verkefna eru mun þyngri í rekstri seinni hluta ársins en þann fyrri. Rekstaryfirlit fyrir jan-sept myndi gefa raunsannari mynd af stöðu verkefna en 6 mánaða yfirlit. 
    Rætt um tíðni í framlagningu rekstaryfirlita og framkvæmdastjóri gerði að tillögu að þau yrðu lögð fram ársfjórðungslega. Tillagan samþykkt.
  3. Fjárhagsáætlun 2020 – forsendur og ákvörðun um árstillag.
    Til undirbúnings 4. haustþings Fjórðungssambands Vestfirðinga leggur framkvæmdastjóri fram drög að fjárhagsáætlun fyrir Vestfjarðastofu fyrir árið 2020, sem er samtímis grunnur að fjárhagsáætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga m.t.t. samninga á milli þessara aðila.

    Heildartekjur eru áætlaðar 236 mkr og lækka frá árinu 2019 um 56 mkr, heildargjöld eru áætluð 235 mkr og lækka frá árinu 2019 um 54 mkr. Almennt er þó gert ráð fyrir að rekstur verði með sambærilegum hætti og á árinu 2019, enda tengjast breytingar á tekjum og gjöldum vinnu að sérverkefnum sem ekki hafa áhrif á almenna starfsemi.

    Framkvæmdastjóri kynnti tillögu um árstillag aðildarsveitarfélaga Fjórðungssambands Vestfirðinga,sem lögð verði fyrir 4. haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga. Tillagan gerir ráð fyrir að árstillaga verði óbreytt frá árinu 2019 eða alls kr 44.900.000,- eða sem nemur kr 6.419,79 kr miðað við íbúafjölda 1. janúar 2019.

    Árstillag á einstaka málaflokka skiptist sem hér segir;

Framlag til rekstur skrifstofu FV

10.200.000,- kr

Framlag til Markaðsstofu

  6.800.000,- kr

Framlag til menningarmála

  9.900.000,- kr

Framlag til umhverfisvottunar

  4.000.000,- kr

Framlag til atvinnuþróunar

  6.500.000,- kr

Samtals framlag til FV

37.400.000,- kr

Lífeyrisskuldbinding FV

  7.500.000,- kr

Samtals

44.900.000,- kr

5. Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024

a. Drög í umsagnarferli

Lögð fram drög að Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024 á grundvelli úrvinnslu á niðurstöðu fundar samráðsvettvangs Sóknaráætlunar þann 22. ágúst s.l.. Með áætlunni fylgir;

-        skýrsla Vestfjarðastofu; Krossgötur – sviðsmyndagreining fyrir Vestfirði (maí 2019)

-        drög að skýrslu Byggðastofnunar Stöðugreining - Vestfirðir  (sept 2019)

-        fyrirtækjakönnun landshluta, unnin af SSV í samstarfi við landshlutasamtökin (júní 2019)

-        íbúakönnun landshluta, unnin af SSV í samstarfi við landshlutasamtökin (apríl 2018) 

Framkvæmdastjóri fór yfir efni áætlunarinnar, framtíðarsýn, áherslur og mælanleg markmið. Eins þær forsendur sem áætlunin treystir á að gangi eftir s.s. uppbygging innviða.

Formaður gerði tillögu;

Vestfjarðastofa leggur áætlunina fram fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga og felur framkvæmdastjóra að leggja áætlunina fram til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur verður settur til 15. október 2019. Yfirferð umsagna og endanleg afgreiðsla áætlunarinnar verður á stjórnarfundi þann 21. október 2019.

Tillagan samþykkt. 

b. Samningur um Sóknaráætlun Vestfjarða

Lögð fram drög að samningi milli Fjórðungssambands Vestfirðinga, samgöngu og sveitarstjórnarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneytis um Sóknaráætlun 2020-2024. Óskað er heimildar stjórnar FV um að staðfesta samninginn.

Lagt fram til kynningar minnisblað stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál frá 9. september 2019. Skipting grunnframlaga ríkisins til sóknaráætlana landhluta 2020-2024.

Rætt um efni endurnýjaðs samnings. Stjórn gerir ekki efnislegar athugsemdir við samninginn og felur formanni að staðfesta hann.

Rætt um forsendur grunnframlaga til sóknaráætlana og skiptingu á einstaka landshluta. Framlög til Vestfjarða lækka um tæpar 10 mkr á grundvelli útreiknings.

Stjórn lýsir miklum vonbrigðum með lækkun framlaga til Vestfjarða og felur framkvæmdastjóra að óska nánari skýringa á forsendum útreikninga. Eins mótmælir stjórn Vestfjarðastofu tillögu í frumvarpi til fjárlaga 2020 um lækkun framlaga til Sóknaráætlana um 15 mkr eða 2 %. Krefst stjórn leiðréttingar á þessar lækkun í fjárlögum 2020. Sömuleiðis verði fylgt eftir áherslum ríkisstjórnar um eflingu byggðamála með hækkun framlaga til sóknaráætlana, í þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árið 2021-2025 sem lögð verður fram á vorþingi 2020.

6.     Áherslur næstu úthlutunar Uppbyggingarsjóðs
Sviðsstjóri lagði fram minnisblað um ramma úthlutun Uppbyggingarsjóðs fyrir árið 2020. Venjan er að auglýst er eftir umsóknum í byrjun október. Nú verður að fresta því ferli þar sem áherslur Sóknaráætlunar liggja ekki fyrir, á meðan beðið er eftir umsagnarferli ljúki. 

Í millitíðinni má hinsvegar m.a. fara yfir úthlutunarreglur og fjárhagsramma styrkflokka og taka síðan inn að lokum endanlegar áherslur. Óskað er heimildar til að vinna að verkefninu á grundvelli minnisblaðs og umræðu stjórnar.

Tillagan samþykkt.

6.     Haustþing

a. Dagskrá og ályktanir
Framkvæmdastjóri lagði fram drög að dagskrá 4. haustþings og óskaði heimildar til að senda hana til aðildarsveitarfélaga, endaleg dagskrá verður send út 15. október. Tillagan samþykkt.  

Eins óskaði framkvæmdastjóri eftir tillögum stjórnar að ályktunum þingsins. Samþykkt að stjórn sendi inn tillögur í tölvupósti sem verði síðan endanlega staðfestar á næsta stjórnarfundi 21. október n.k..

b. Tillaga að samskiptaplani í aðdraganda Haustþings
Framkvæmdastjóri kynnti áætlun um samskipti skrifstofu FV og aðildarsveitarfélaga. Hluti þeirrar áætlunar er að stofnaður hefur verið á Facebook, vettvangur sveitarstjórnarfulltrúa á Vestfjörðum. Þar eru málefni þingsins og starfsvettvangur þess kynntur, kæmi þetta til viðbótar þeim hefðbundnu samskiptum skrifstofu FV við sveitarfélögin í aðdraganda þingsins.

c. Milliþinganefnd
Sviðsstjóri kynnti að tillögur milliþinganefndar að breytingum á samþykktum og þingsköpum Fjórðungssambands Vestfirðinga hefðu farið til umsagnar sveitarfélaga, með fresti til 10. september s.l..

Sveitarstjórnir í Ísafjarðarbæ, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi, Bolungarvíkurkaupstað og Reykhólahreppi hafa fjallað um málið og gera ekki athugasemdir við framkomnar tillögur. Málið hefur ekki verið tekið fyrir í öðrum sveitarstjórnum.

Sviðsstjóri kynnti fundargerð starfsháttarnefndar Vestfjarðastofu frá 9. ágúst s.l. þar sem beint er til stjórnar, að taka til umræðu að sett verði heimildarákvæði um að kalla fjárhagsnefnd saman milli þinga. Eins styður starfsháttarnefnd tillögu um nýja skipan úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs og stofnun fagráða.

Sviðsstjóri kynnti minnisblað hvernig staðið er að skipun úthlutunarnefnda og fagráða uppbyggingarsjóða á vettvangi annarra landshlutasamtaka.

Rætt um efni máls og samþykkt eftirfarandi;

Stjórn fellst ekki á að setja heimildarákvæði um að kalla fjárhagsnefnd saman milli þinga. Bendir stjórn á, að með tillögu milliþinganefndar um að lengja frest til útsendingu gagna úr 10 í 15 daga gefst þingfulltrúum og sveitarstjórnum aukin tími til að fjalla um málefni þinga. Einnig leggur stjórn til að virkja hér samráðsvettvang stjórnar FV, oddvita og framkvæmdastjórum sveitarfélaganna (samkvæmt 9. gr samþykkta FV) til að ræða fjárhagsmál FV og framkvæmd samstarfssamnings FV og Vestfjarðastofu, verði í aðdraganda þinga.

Stjórn samþykkir að leggja til breytingu á skipan úthlutunarnefndar en í trausti þess að kostnaður við starf nefndarinnar aukist ekki. Nefndin verði áfram kosin á Fjórðungsþingi en skipan hennar verði sem hér segir;

Fimm manna úthlutunarnefnd, þar af einn fulltrúi af norðanverðum Vestfjörðum, einn af sunnanverðum Vestfjörðum, einn af Ströndum/Reykhólum og tveir utan Vestfjarða.

Fjögurra manna fagráð menningar og fjögurra manna fagráð atvinnuþróunar, nýsköpunar og umhverfismála, þar af einn fulltrúi af norðanverðum Vestfjörðum, einn af sunnanverðum Vestfjörðum, einn af Ströndum/Reykhólum og einn utan Vestfjarða.

Óskaði sviðstjóri heimildar stjórnar að senda tillögur milliþinganefndar með áorðnum breytingum til umfjöllunar á 4. Haustþingi.  Tillagan samþykkt.

7. Önnur mál

a. Fjárlög 2020 – umsögn.
Sviðstjóri kynnti að fjárlaganefnd hefði óskað umsagnar FV á frumvarpi til fjárlaga 2020, umsagnarfrestur er settur til 4. október n.k. og fundað yrði með nefndinni í framhaldinu. Sviðsstjóri kynnti atriði í frumvarpinu sem varða hagsmuni vestfirska sveitarfélaga. Formaður gerði tillögu um að stjórn færi yfir frumvarpið með ábendingum sviðsstjóra og sendi í tölvupósti tillögur sem yrðu lagðar til grundvallar umsagnar.

b. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2019
Framkvæmdastjóri kynnti boð Sambands íslenskra sveitarfélaga á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þann 3. og 4. október n.k.. Framkvæmdastjóri og sviðsstjóri sækja ráðstefnuna.

c. Kjördæmavika - fundur 30. September
Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er kjördæmavika þingmanna haldin dagana 30. sept til 3. október n.k.. Í samráði við 1. þingmann NV kjördæmis hefur verið ákveðið fundurinn verði haldinn 30. september í Flókalundi.
Rætt um staðsetningu fundarins og málefni hans.

d. 70 ára afmæli Fjórðungssambands Vestfirðinga – 11. Nóvember
Sviðsstjóri og framkvæmdastjóri lögðu fram minnisblað með tilögu um undirbúning samkomu í tilefni að 70 ár eru liðin frá því FV var stofnað. Nánar tiltekið þann 8. nóvember 1949. Lagt er til að haldinn verði ráðstefna á Ísafirði mánudaginn 11. nóvember n.k. þar sem fjallað verði um orkumál og fjarskiptamál á Vestfjörðum.

Framkvæmdastjóri óskaði heimildar að vinna að málinu á grundvelli minnisblaðs. Tillagan samþykkt.

e. Almannatengsl – stöðuskýrsla.
Formaður lagði til að umræðu dagskrárlið verði frestað til næsta fundar. Tillagan samþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl 16.30.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri.