Fara í efni

20 milljónir til eflingar vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða Heilsársferðaþjónusta

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra fyrir hönd Menningar- og viðskiptaráðuneytis hefur undirritað samning við Vestfjarðastofu um þróun vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum. Um er að ræða 20 milljóna króna stuðning til tveggja ára við verkefni sem miðar að því að lengja ferðamannatímabilið á svæðinu.

Vestfjarðastofa hefur átt í löngu og uppbyggilegu samtali við Menningar- og viðskiptaráðuneyti vegna samningsins. Jafnari dreifing ferðamanna yfir árið og um landið er einn liður í ferðamálastefnu til ársins 2030. Verkáætlun gerir ráð fyrir þriggja ára verkefni þar sem fyrsta ári verður varið til þróunarvinnu á vetrarferðum, á meðan næstu tvö ár munu beinast að markaðssetningu.

Tækifæri á Vestfjörðum yfir vetrartímann
Með verkefninu er stefnt að því að auka ferðamannastrauminn yfir vetrartímann og draga úr árstíðasveiflum í ferðaþjónustu. Vestfirðir bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir ferðamenn, allt frá einstökum náttúruperlum til upplifana eins og norðurljósaskoðun og vetrarævintýra. Þrátt fyrir að þróunarvinnan sé rétt að hefjast, er byggt á mikilli vinnu þeirra sem stundað hafa heilsársferðaþjónustu á svæðinu til þessa og augljóst er að svæðið hefur margt fram að færa fyrir ferðamenn sem vilja njóta þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða á vetrum.

Betri aðgengi og aukin ferðaþjónusta
Samgöngubætur á Vestfjörðum, þar á meðal Dýrafjarðargöng og bundið slitlag á Dynjandisheiði, hafa gert svæðið aðgengilegra en nokkru sinni fyrr, og nú þegar hefur hópaferðum til landshlutans fjölgað yfir vetrarmánuðina.

Samstarf og framtíðarsýn
Vestfjarðastofa annast framkvæmd verkefnisins í nánu samstarfi við fyrirtæki og aðra hagsmunaaðila á svæðinu, með það að markmiði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem Vestfirðir bjóða yfir vetrartímann.

Vestfirðir eru svæði með einstaka möguleika fyrir ferðaþjónustu árið um kring, og með þessum samningi vonumst við til að efla til muna ferðaþjónustu á Vestfjörðum allt árið.