Menningarfulltrúar landshlutanna hittust í Reykjavík fyrir skemmstu og fóru síðan Vestfjarðaleiðina. Ferðin var einstaklega vel heppnuð og sérstaklega vakti það athygli hversu vel er stutt við skapandi greinar á Ísafirði. Sumir voru að koma á Vestfirði í fyrsta skipti en allir heilluðust af hinni stórbrotna landslagi sem hvarvetna blasti við og því hversu heimamenn voru öflugir og sjálfbjarga um margt.
Í Reykjavík var fundað með Elfu Lilju Gísladóttur, verkefnisstjóra List fyrir alla, en verkefnið sendir reglulega listamenn í hæsta gæðaflokki til Vestfjarða og styður við heimamenn sem hafa náð langt í list sinni. Í vetur stendur verkefnið fyrir komu þeirra Frach-bræðra sem eru frá Ísafirði, en hafa um nokkurra ára skeið stundað framhaldsnám í Póllandi. Vakin var sérstök athygli á verkefninu Málæði.
Vigdís Jakobsdóttir, fráfarandi listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavíkur hitti hópinn og ræddi m.a. um vinnu við sviðslistastefnu Íslands, sem nú er verið að leggja lokahönd á. Við starfi hennar tekur Lára Sóley Jóhannsdóttir sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Hópurinn fór í menningarráðuneytið og hitti aðstoðarfólk ráðherra og embættismenn sem sinna menningarmálum á ágætum og vonandi skilvirkum fundi. M.a. voru ræddir möguleikar á því að efla safnastarf og að lengja opnunartíma safna.
Þá hitti hópurinn Jónu Hlíf Halldórsdóttur, en Jóna var nýlega kosinn nýr forseti BÍL, Bandalags íslenskra listamanna. Jóna er mjög skeleggur og öflugur talsmaður lista og menningar og leggur áherslu á að landsbyggðin verði ekki útundan í þeim málum. T.d. má vel hugsa sér að BÍL tilnefni fulltrúa í fagráð Uppbyggingarsjóðs.
Hin nýstofnaða Tónlistarmiðstöð Íslands var heimsótt og þær Önnu Rut Bjarnadóttur og Maríu Rut Reynisdóttur. Starfsfólk hafði mikinn áhuga á því að fjölga umsóknum af landsbyggðinni í Tónlistarsjóð. Mikilvægt væri líka að kynna vel þá ferðastyrki sem eru í boði hjá Tónlistarsjóði.
Að lokum fóru menningarfulltrúar upp í RÚV í Efstaleiti og hittu þar Guðna Tómasson, menningarritstjóra, Margréti Jónasdóttur, aðstoðardagskrárstjóra sjónvarps og Fanneyju Birnu Jónsdóttur, dagskrárstjóra menningar. Allir voru sammála um að auka þyrfti dagskrárgerð á landsbyggðinni og sammælst um að hafa góða samvinnu um það.
Að loknu þessu dagsverki var brunað vestur í Flókalund og gist þar í góðu yfirlæti. Rúmin í Flókalundi eru fádæma góð og hæfilegur göngutúr í Hellulaug.
Í bítið morguninn eftir var ekið að Hnjóti í Örlygshöfn og Inga Hlín Valdimarsdóttir, safnstjóri Minjasafns Egils Ólafssonar tók á móti hópnum. Áhugavert er að sjá að í elsta hluta safnsins, sem má segja að sé safn um safn, hefur verið farin sú leið fyrir allmörgum áratugum að teikna skýringarmyndir sem útskýra notkun ýmissa safngripa. Þannig er komist hjá ýmsum tungumálaörðugleikum. Á safninu er frábær sýning um björgunarafrekið við Látrabjarg, þar sem mynd Óskars Gíslasonar er sýnd og áhrifaríkt líkan Þórarins Blöndal af aðstæðum við björgunina. Þar er einnig sýning um Gísla á Uppsölum og áhugaverð farandsýning um komur hvítabjarna á Vestfirði í gegnum aldirnar. Að Hnjóti er líka flugminjasafn og þar má fá ágætt kaffi.
Á Patreksfirði var hin nýuppgerða Vatneyrarbúð skoðuð, Þórkatla Ólafsdóttir og Guðrún Anna Finnbogadóttir sýndu húsið og sögðu frá þeirri fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Einn úr hópi menningarfulltrúa, Sigursteinn Sigurðsson, er arkitekt að mennt og kom að hönnun og endurgerð hússins og er óhætt að segja að vel hafi til tekist.
Snæddur var hádegisverður á Vegamótum þar sem Gísli Ægir tók á móti hópnum með sínu fólki. Valgerður María Þorsteinsdóttir, menningarfulltrúi Vesturbyggðar, kom og sagði frá starfi sínu, en Vesturbyggð er eina sveitarfélagið á Vestfjörðum sem hefur ráðið menningarfulltrúa.
Á Skrímslasetrinu sýndi Ásdís Snót sýninguna, en hún ásamt eiginmanni sínum og öðru pari hafa nýlega keypt setrið. Hún sagði frá fyrirætlunum um frekari uppbyggingu. Vonandi tekst að lengja opnunartímann á þessari stórskemmtilegu sýningu.
Það var ánægjulegt að sjá hversu vel miðar með veglagningu yfir Dynjandisheiði. Það er undarlegt að það eigi að skilja örstuttan spotta eftir, þegar búið er að leggja í alla þessa framkvæmd. Vonandi að því verði kippt í lag sem fyrst. Það er ekki síst áríðandi til að fá stærri sneið af ferðamannakökunni, að hægt sé að aka á bundnu slitlagi alla Vestfjarðaleiðina.
Aðstaðan við Dynjanda er til fyrirmyndar, enda einn þekktasti ferðamannastaður Vestfjarða og raunar á landsvísu. Allt er þar snyrtilegt og öll uppbygging, s.s. stígar og girðingar falla vel að landslaginu.
Menningarfulltrúarnir voru sammála um að það væri til fyrirmyndar hvernig Ísafjörður tekur á stöðu skemmtiferðaskipa, m.a. með viðburðasjóði Ísafjarðarhafna, fjöldatakmörkunum í bænum hverju sinni, uppbyggingu aðstöðu sem getur tekið við ferðamönnum og veitt afþreyingu. Byggðasafn Vestfirðinga er metnaðarfullt verkefni á sviði menningarmála sem býður ferðamenn velkomna og hefur tekist einstaklega vel til. Jóna Símonía stýrir því góða starfi af festu og smekkvísi.
Nágranni Byggðasafnsins er veitingastaðurinn Tjöruhúsið, en þetta er elsta húsaþyrping á landinu sem enn stendur á upprunalegum stað. Eftir málsverð þar voru allir sammála um að það væri vandfundin betri fiskmáltíð, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum. Algjörlega einstakur staður og áhugavert hvernig hráar aðstæðurnar styðja vel við stemminguna sem hefur verið sköpuð í þessu gamla húsi.
Skoðuð var uppbyggingin á Bolafjalli. Hún er um margt verulega vel heppnuð, svo traustvekjandi að jafnvel hinir lofthræddustu í hópnum upplifðu sig alveg örugga. Reyndar var þokan svo þétt að menn sáu ekki handa sinna skil, kannski hefur það hjálpað til.
Menning og skapandi greinar á Ísafirði hafa sjaldan eða aldrei verið í nánari samvinnu. Þar er ekki síst að þakka samvinnurýminu Netagerðinni, sem Heiðrún Jóhannsdóttir rekur með dæmalausri elju og hugmyndaauðgi. Þar innan dyra eru um þrjátíu sjálfstætt starfandi aðilar sem eru að fást við allt mögulegt og styðja hver við annan einfaldlega með því að vera undir sama þaki.
Komið var við í Kertahúsinu og skoðuð sú markvissa uppbygging sem þar á sér stað og spratt upp úr þörf á því að skapa sér vinnu á erfiðum tímum Covid og barneigna. Þar hefur tekist einstaklega vel til með frjórri hugsun og drifkrafti.
Í Litlabæ við Skötufjörð er óvanaleg samsetning af safni og kaffihúsi. Það þarf hvorki marga fermetra né mikla lofthæð til að skapa vinalegt andrúmsloft, en grunnflötur hússins er ekki nema 29 m2. Nálægt þessum vinsæla áningarstað er líka vinsæll áningarstaður sela sem gjarnan skríða upp á sker til að baða sig í sólskini.
Í Þróunarsetrinu á Hólmavík starfa ýmsir einyrkjar og lítil fyrirtæki og stofnanir undir sama þaki. Þar geta málin æxlast þannig að fólk hittist sjaldan, svo kaffitíminn er alveg heilög stund. Allir leggja frá sér tól sín og tæki þegar kaffitíminn rennur upp, enda eru umræðurnar líflegar og lífsgátan leyst í hverjum kaffitíma. Sigurður Líndal, verkefnisstjóri, hitti hópinn og bauð upp á kaffi, en hann hefur starfsstöð á Hólmavík ásamt Skúla Gautasyni menningarfulltrúa.
Því miður var búið að loka á Galdrasýningunni á Ströndum. Þar er ekki opið lengi frameftir, en hinsvegar leggur Anna Björg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri, ríka áherslu á að hafa opið allan ársins hring og hvetur aðra ferðaþjónustuaðila til að gera slíkt hið sama. Þannig, og ekki öðruvísi, er hægt að lengja ferðamannatímabilið. Galdrasýningin á Ströndum er enda fjölsóttasta menningarstofnun á Vestfjörðum og má segja að hún hafi haldið Hólmavík á kortinu í þann aldarfjórðung sem hún hefur verið við lýði.
Haustfundurinn í heild heppnaðist með eindæmum vel. Það er afar mikilvægt fyrir lykilfólk í menningargeiranum að fá innsýn inn í það sem er að gerast í öðrum landshlutum. Við lærum hvert af öðru, fáum hugmyndir að láni og vinnum sameiginlega að því marki að gera mannlífið í landinu okkar fjölbreytilegt og litskrúðugt.