Í síðustu viku luku starfsmenn Orkubús Vestfjarða við að spennusetja þriggja fasa jarðstreng yfir Trékyllisheiði. Með því er komið þriggja fasa rafmagn í Djúpavík.
Orkubúið hafði þegar plægt niður streng frá Djúpavík og upp á miðja heiði fyrir nokkrum árum í kjölfar illviðris sem braut fjölda rafmagnsstaura. Síðastliðið sumar var síðan unnið að því að plægja niður jarðstreng ofan af miðri Trékyllisheiði og suður í Steingrímsfjörð, oft við afar erfiðar aðstæður. Strengirnir hafa nú verið tengdir og gömlu rafmagnsstaurarnir yfir heiðina hafa því lokið hlutverki sínu. Þar sem strengurinn yfir alla heiðina er nú kominn í jörð er mun minni hætta á rafmagnstruflunum, en strengurinn liggur á 90-100 cm dýpi og hann því nánast ónæmur fyrir veðri og vindum.
Samhliða lagningu rafstrengsins var lagt rör fyrir ljósleiðara, en ekki náðist að blása ljósleiðarastrengnum í það áður en vetur skall á á heiðinni. Verður það gert um leið og veður leyfir næsta vor. Til þessa verks fékkst styrkur úr Fjarskiptasjóði og má segja að sá styrkur hafi hrint þessu verkefni af stað. Jarðstrengir og ljósleiðararör eru jafnan lögð samtímis alls staðar sem mögulegt er, enda mikið hagræði að þeirri samnýtingu tækja og vinnu.
Vonast er til þess að haldið verði áfram með verkið næsta sumar og þá lagt þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari yfir Naustvíkurskörð í Trékyllisvík og Norðurfjörð.
Íbúar Árneshrepps eru afar ánægðir með þetta skref, enda hefur skortur á þriggja fasa rafmagni hamlað ýmsum framförum í sveitarfélaginu. Í nokkur ár hefur t.d. ekki verið hægt að framleiða ís í Norðurfjarðarhöfn og því hefur þurft að keyra hann mörg hundruð kílómetra leið með tilheyrandi sótspori. Höfnin í Norðurfirði er afar vinsæl meðal strandveiðisjómanna og eru bundnar vonir við frekari uppbyggingu þar í kjölfar þrífösunar.