Fara í efni

Tíu nýjar bækur að vestan

Fréttir

Á frétt á www.thingeyri.is eftir Hallgrím Sveinsson kemur fram að á þeirri bókavertíð sem nú fer í hönd koma út 10 nýjar bækur hjá Vestfirska forlaginu. Bækurnar að vestan fjalla fyrst og fremst um Vestfirði og Vestfirðinga, en eins og allir vita eru Vestfirðingar nokkuð sér á báti. Bækurnar að vestan eru allar prentaðar á Íslandi, hjá Ásprent á Akureyri og Odda í Reykjavík og þær fást í bókaverslunum um land allt.
Nýju bækurnar eru þessar:

Frá Bjargtöngum að Djúpi 10. bindi
Í bókaflokknum Frá Bjargtöngum að Djúpi er fjallað um vestfirskt mannlíf að fornu og nýju. Hér er um að ræða rammvestfirskt efni skrifað af mörgum landskunnum og minna þekktum höfundum og fróðleiksmönnum sem allir tengjast Vestfjörðum á einn eða annan veg. Þúsundir Vestfirðinga koma hér við sögu. Hundruð ljósmynda setja sterkan svip á bókaflokkinn sem margar birtast þar í fyrsta sinn.

Meðal efnis í þessu bindi:
Ari Ívarsson fjallar um Sauðlauksdal og kartöflurækt séra Börns Halldórssonar, sem breiddist þaðan út um landið.
Hafliði Magnússon stiklar á stóru um lífshlaup Marinós Jóhannssonar, flugstjóra og skrifar einnig þáttinn Gamanmál að vestan.
Finnur Torfi Hjörleifsson segir frá veru sinni á Núpsskóla 1950-1952.
Ítarleg umfjöllun er um Sturlu Jónsson á Suðureyri í máli og myndum.

99 vestfirskar þjóðsögur. Gamanmál að vestan, 2. hefti
Séra Þórarinn Þór var sóknarprestur á Reykhólum allmörg ár á síðari hluta 20. aldar. Eitt sinn sem oftar var haldinn fundur í sóknarnefnd Garpsdalskirkju. Meðal fundarmanna var Ólafur E. Ólafsson, kaupfélagsstjóri í Króksfjarðarnesi. Fundarmenn ræddu fyrirliggjandi mál svo sem venja er á fundum, prestur tók engan þátt í því, þar sem hann var upptekinn við að semja krossgátu. Þegar langt er liðið á fundinn segir Ólafur:
Erum við ekki að trufla þig, séra Þórarinn með þessu skrafi okkar.
Nei, nei, segir prestur, ég er alveg að verða búinn.

Satt eða logið? Það skiptir kannski ekki öllu máli. Ef sagan er góð, er hún sönn, var einhverntíma sagt. Svo mun vera almennt um vestfirsku nútíma þjóðsögurnar. Þær eru margar sannar af því þær eru góðar. Það kemur glöggt fram í þessu 2. hefti af 99 vestfirskum þjóðsögum. Vestfirski húmorinn lætur ekki að sér hæða fremur en fyrri daginn.

Diddasögur. Reykjavíkurstrákur segir frá.
Kristinn Snæland, Diddi, segir frá uppvaxtárunum í Reykjavík, þar sem margt var brallað. Svo var hann svo lánsamur að vera sendur í sveit. Það varð honum til gæfu eins og mörgum öðrum. Þetta var á árunum 1940-1950, þegar Ísland var að gjörbreytast.
 
Höfundur segir meðal annars í formála: “Ég kann að valda þeim vonbrigðum sem vænta þess að ég geti sagt frá illu atlæti, hungri, vosbúð, vinnuþrælkun eða barsmíðum. Sem betur fer leið allur þessi tími nánast sem sæla í sumri og sólaryl. Svona sá ég, lifði og lærði þessi byltingarkenndu ár.”

Brimalda. Könnunarsaga eftir Þorvarð Helgason.
Brimalda segir frá ungum manni utan af landi sem kemur aftur á æskustöðvarnar eftir námsdvöl erlendis og stuttan starfstíma í Reykjavík. Hann fór ungur að heiman undir sterkum áhrifum frá afa sínum sem var
mikill guðspekisinni og áhugamaður um félagslegt réttlæti.

Þegar hann kemur aftur til að kenna í plássinu verður á vegi hans undarlegt fyrirbæri, þykir honum, draugur frá löngu liðinni tíð, lénsfyrirkomulag sem kallast manna á milli kvótakerfi. Hann ákveður að kynna sér þetta ófrýni, afturgengið á Íslandi nútímans. Sagan segir frá þeirri könnun sem og ýmsu öðru sem hefur orðið og verður á vegi hans.

Jón Sigurðsson forseti. Lítil sögubók. Hallgrímur Sveinsson tók saman.
Þetta kver er ekki annað og meira en það sýnist vera: Örfá orð um Jón forseta handa alþýðu manna.
Allir Íslendingar ættu að kunna skil á nokkrum grundvallaratriðum úr ævi Jóns Sigurðssonar.
Minnumst þess, að ef við gleymum sögu okkar, er hætta á að við týnumst í eigin landi.

Látum það ekki henda okkur, að þeir sem eiga að erfa landið, viti ekki hvers vegna 17. júní var valinn þjóðhátíðardagur á Íslandi. Á nokkrum stöðum eru kaflar sem nefnast Til áherslu. Þá ættu sem flestir, einkum þeir sem ungir eru, að læra utan að. Hinir eldri ættu að hlýða þeim yngri yfir. Munið: Ungur nemur gamall temur. Sumt af því sem menn lærðu í æsku, muna margir ævilangt. Þá þarf ekkert að vera að fletta því upp í tölvu! Auk þess hafa allir gott af að læra eitthvað utanbókar.

Vissir þú hvílikt afrek það var að halda úti Nýjum félagsritum í 30 ár? Vissir þú að Jón forseti sagði að algjört frelsi væri sama og agaleysi og ósjórn? Vissir þú að sá hlutur var varla til sem landar Jóns báðu hann ekki um að hjálpa sér með? Vissir þú að hann stundaði heræfingar í lífverði Danakóngs? Vissir þú að árið 1855 var Jón Sigurðsson illa staddur fjárhagslega, sem rekja mátti beint til starfa hans í þágu Íslendinga? Vissir þú að þá söfnuðu stuðningsmenn hans 47 ríkisdölum og 76 skildingum á öllu Íslandi honum til stuðnings? Og vissir þú að það sama ár skutu Íslendingar saman 1480 ríkisdölum til að reisa styttu af Marteini Lúther suður í Þýskalandi?

Svalvogavegur. Kafli úr lífsbók minni ásamt vísnagátum eftir Elís Kjaran.
Fallegur, skemmtilegur og hrikalegur eru lýsingarorð sem notuð hafa verið um útnesjaveginn hans Ella, sem á síðari árum hefur verið kallaður Kjaransbraut. Nýlega var vegurinn útnefndur eitt af sjö merkilegustu mannvirkjum á Vestfjörðum.

Geturðu ráðið hana þessa?

Í stofunni er ég staðlað par
stundum ýtt á saltan mar.
Í fornum veislum fagnaðar
og flyt enn boðskap gleðinnar.

Yfir húmsins haf eftir síra Ágúst Sigurðsson frá Möðruvöllum.
Þetta er þriðja bókin sem Vestfirska forlagið gefur út eftir síra Ágúst þar sem segir frá kirkjum og kirkjustöðum á Vestfjörðum í stuttu og hnitmiðuðu máli. Í manns munni fjallar um staðina í Barðastrandarsýslu og Kvöldlag við kirkjudyr segir frá Vestur-Ísafjarðasýslu. Sú nýjasta, Yfir húmsins haf fjallar um kirkjur og staði í Norður-Ísafjarðarsýslu. Alls eru þetta 43 kirkjusetur hér vestra sem fróðleiks- og sagnapresturinn segir frá með sínu forna lagi, en fáir ef nokkrir núlifandi fræðimenn skrifa slíkan texta sem síra Ágúst Sigurðsson.

Um 500 ljósmyndir eru í þessari vestfirsku kirkjusögu og er þó Strandasýslan eftir. Margar þeirra hafa aldrei birst áður og kennir þar margra grasa. Er ólíklegt að nokkurs staðar séu saman komnar jafn margar frásagnir í myndum af vestfirskum kirkjum, prestum, eiginkonum þeirra og niðjum, leikmönnum, kirkjulegu starfi og athöfnum sem í umræddum bókum Möðruvellingsins. Myndasöfnun hans úr vestfirskum prestaköllum er með ólíkindum og lýsir miklum dugnaði og þreki fræðiklerksins. En síra Ágúst á líka hauk í horni þar sem er eiginkona hans. Guðrún L. Ásgeirsdóttir, sem styður hann með ráðum og dáð.

Amma Lóló og ég. Barnabók eftir Björgu Elínu Finnsdóttur.
Birta og amma hennar Lóló bralla margt saman. Pabbi Birtu segir að amma Lóló sé grallari hinn mesti.
Amma Lóló býr í vesturbænum í Reykjavík.
,,Þar er jafn gott að búa og í henni Kaupmannahöfn,” segir amma Lóló. Þar átti hún og afi heima fyrir langa löngu. Þá var mamma bara lítil stelpa og afi var að læra að verða verkfræðingur og amma Lóló að læra myndlist.
,Já, amma þín dásamar vesturbæinn,” segir mamma.

Vestanvindur. Ljóð og lausir endar eftir Ólínu Þorvarðardóttur.
Ólína Þorvarðardóttir, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, er ein af þessum vestfirsku kjarnakonum sem láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þetta er hennar fyrsta ljóðabók.
Ólína er landsmönnum kunn af störfum sínum á sviði fjölmiðla, þjóðfélagsumræðu og fræða. Hún er þjóðfræðingur að mennt, háskólakennari og rithöfundur. Ólína hefur starfað sem sjónvarpsfréttamaður, ritstjóri, borgarfulltrúi í Reykjavík og skólameistari á Ísafirði. Hún er fimm barna móðir og nú nýbökuð amma.

Þó að Ólína sé þekktur hagyrðingur hefur hún farið hljóðlega sem ljóðskáld. Vestanvindur spannar ljóðagerð hennar frá unglingsárum fram á þennan dag, en í bókinni eru einnig nokkrir prósar, eða lausir endar, eins og höfundur kýs að kalla þá.

Silja eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur.
Silja er framhald bókarinnar Harpa sem út kom í fyrra hjá Vestfirska forlaginu, í bókaflokknum Ástarsögurnar að vestan.

Söguhetjan er héraðs- og fæðingarlæknir úti á landi, sennilega einhvers staðar í Húnavatnssýslum. Hún býr rétt við þjóðveginn á gömlum sveitabæ sem hún gerir upp með vinkonum sínum. Það fylgir því álag að vera læknir á Íslandi, sérstaklega yfir vetrartímann, og Silja fer ekki varhluta af því. Jafnframt stríða þær vinkonur allar við ýmsa drauga úr fortíðinni, sem erfitt er að kveða niður. Óli sjúkrabílstjóri og vegagerðarmaður hefur aðsetur í kjallaranum hjá þeim stöllum og hrífur eitt og eitt hjarta.

Mannlíf og saga fyrir vestan 20. hefti
Fyrr á árinu kom út 20. heftið í ritröðinni Mannlíf og saga fyrir vestan og fjallar eingöngu um Beiðavíkurheimilið á árunum 1952-1964. Segja má að þetta sé hin hliðin á Breiðavík og er þá vitnað til þeirra sársaukafullu og einsleitu umræðna sem átt hafa sér stað á árinu um heimilið. Vestfirska forlagið vill leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar til að rifja upp fyrir fólki að á hinu stóra vestfirska sveitaheimili í Breiðavík var ekki alltaf tómt svartnætti eða kuldi ríkjandi. Þar var oft þvert á móti mannúð og mildi höfð að leiðarljósi.