Umhverfislestin er farandsýning sem er haldin á vegum Vestfjarðastofu og fjallar um umhverfismál heimilanna á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt. Þar gefst fólki tækifæri til að fræðast um stöðu loftslagsmála og annarra umhverfismála og hvaða aðgerða er þörf til að bregðast við. Markmiðið er að vekja athygli á þeim alvarleika sem blasir við í umhverfismálum en einnig að kynna fyrir fólki ýmsar lausnir og aðgerðir sem flestir geta auðveldlega tileinkað sér í daglegu lífi til að leggja sitt af mörkum.
Umhverfislestinni er ætlað að svara ýmsum spurningum eins og:
- Er rafbíll raunhæfur kostur fyrir Vestfirðina?
- Hvernig á að flokka rusl í minni heimabyggð?
- Hvort er verra fyrir umhverfið, íslenskt lambakjöt eða innflutt sojakjöt?
- Hvernig virka vindmyllur?
- Hvað er molta og af hverju skiptir máli að við flokkum lífrænan úrgang?
- Hvað getum við gert í tengslum við loftslagsvá heimsins?
Á sýningunni verður m.a. hægt að skoða og prófa tvinnbíl og rafhjól og spyrja sérfræðinga hvort það séu raunhæfir kostir fyrir Vestfirðinga. Á staðnum verður lítið reiðhjólaverkstæði og eru gestir hvattir til að taka með sér eigin hjól og fá aðstoð við viðgerð eða leiðbeiningar um viðhald. Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður með vinnusmiðju þar sem orkuhugtakið verður skoðað og vindmyllur smíðaðar sem breyta vindorku í raforku.
Hægt verður að kaupa umbúðalausar þurrvörur á staðnum sem og ýmsar umhverfisvænar lausnir fyrir heimilið. Mælt er með því að mæta með ílát, krukkur og box til að kaupa í.
Matreiðslumeistari fræðir fólk hvernig hægt er að sporna gegn matarsóun og dýrindis diskósúpa verður á boðstólnum fyrir alla.
Sýningin fellur undir áhersluverkefni Umhverfisvottunar Vestfjarða og er styrkt af Sóknaráætlun Vestfjarða
Hönnuður sýningarinnar er Ásta Þórisdóttir, hönnuður og listgreinakennari á Hólmavík.
Grafísk hönnun veggspjalda er eftir Áslaugu Baldursdóttur.
Umhverfislestin var formlega opnuð af Sigurði Inga Jóhannssyni Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra laugardaginn 25. október á Hólmavík í kjölfar Fjórðungsþings Vestfirðinga.
Næsta sýning verður á Patreksfirði á fimmtudaginn 31. október frá kl. 16:00 til 20.00 í Félagsheimilinu á Patreksfirði Laugardaginn 2. nóvember verður svo sýning á Ísafirði í Edinborgarhúsinu kl. 13:00 til 17:00