Vestfirðingar einsettu sér árið 2012 að skara framúr í umhverfismálum og vera stóriðjulaus landshluti. Hluti af því ferli var að fá umhverfisvottun á rekstur allra sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Því markmiði var náð 2016 þegar Vestfirðir fengu silfurvottun EarthCheck, sem síðan þá vottar Vestfirði sem sjálfbæran áfangastað.
Þann 8. nóvember 2012 tóku sveitarfélögin á Vestfjörðum ákvörðun um að gerast aðilar að umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck, sem voru þá einu umhverfisvottunarsamtök í heimi sem vottuðu sjálfbæra áfangasstaði í samræmi við kröfur Global Sustainable Tourism Council.
Fjórðungssamband Vestfirðinga sá um utanumhald verkefnisins fyrstu árin og vann þær skýrslur sem þurfti til að fá vottunina. Seinna tók Vestfjarðastofa við verkefnum Fjórðungssambandsins og 2020 tók Náttúrustofa Vestfjarða (NAVE) við verkefninu. Vestfjarðastofa tók svo við því á ný árið 2023, en þá hafði starfsemi verið í lágmarki Covid árin á undan.
Nú hafa sveitarfélögin og Vestfjarðastofa blásið til sóknar í umhverfismálum, m.a. með gerð svæðisáætlunar um úrgang og loftslagsstefnu. Í þeirri vinnu eru vonir bundnar við utanumhald umhverfisstjórnar- og gæðakerfis Earth Check varðandi skráningu og skipulag.
Með verunni í Earth Check skuldbinda sveitarfélög á Vestfjörðum sig til að taka mið af sjálfbærni; samfélaglega, efnahagslega og umhverfislega, taka mið af umhverfinu í öllum sínum ákvörðunum og tryggja sjálfbæra nýtingu svæðisins.
Sveitarfélögin á Vestfjörðum eru nú með silfurmerki Earth Check