Fara í efni

Púkinn - Barnamenningarhátíð Vestfjarða

Púkinn er barnamenningarhátíð sem haldin er um alla Vestfirði dagana 11.-22. september 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem slík hátíð er haldin á Vestfjörðum og vonumst við til að hún sé aðeins sú fyrsta af mörgum. Púkinn er frábær vettvangur fyrir vestfirsk börn að kynnast listum og menningu á fjölbreyttan hátt og einnig er hann kjörinn til allra handa samstarfs innan svæðisins svo efla megi svæðisvitund meðal vestfirskra barna. Púkinn er hugsaður sem vettvangur fyrir menningu með börnum, menningu fyrir börn og menningu sem börn skapa sjálf. Það er Vestfjarðastofa sem leiðir verkefnið í samstarfi við alla grunnskóla og menningarstofnanir á svæðinu. Hátíðin er styrkt af Barnamenningarsjóði.

Nafnið Púkinn er vel við hæfi því á mörgum stöðum innan fjórðungsins hafa börn gjarnan verið kölluð púkar, þá ekki í neinni niðrandi merkingu heldur einvörðungu sem annað heiti yfir börn. Nafnið varð hlutskarpast í lýðræðislegri nafnakosningu sem fram fór meðal allra grunnskólabarna á svæðinu.