Í langspilssmiðjum Eyjólfs Eyjólfssonar læra þátttakendur undirstöðuatriðin í langspilsleik eins og stramm og plokk með álftafjöðrum. Einnig verður boðið upp á að strjúka strengina með hrosshársbogum. Þátttakendur fræðast um langspilið í sögulegu, menningarlegu og alþjóðlegu samhengi, með sérstakri áherslu á gamla bændasamfélagið og baðstofumenninguna. Kennd verða vel valin þjóðlög er tengjast þjóðlagasöfnun séra Sigtryggs Guðlaugssonar prófasts á Núpi í Dýrafirði og kvæðaskap Margrétar Þórðardóttur prestsfrúar af Snæfjallaströnd. Margrét gekk undir nafninu Galdra-Manga og var kærð fyrir galdra, ofsótt um allt land og eftirlýst í Alþingisbókum eftir miðja 17. öld.
Undir lok smiðjunnar verða lögin flutt við langspilsleik þátttakenda.