Styrkir Menningarráðs Vestfjarða vorið 2010
Fyrri styrkúthlutun Menningarráðs Vestfjarða árið 2010 fór fram við hátíðlega athöfn á Skrímslasetrinu á Bíldudal þann 15. maí kl. 15:00. Flutt var tónlist og haldin erindi, Skrímslasetrið kynnt og skoðað, auk þess sem styrkvilyrði voru afhent og að sjálfsögðu var boðið upp á kaffi og vöfflur á eftir. Umsóknir til Menningarráðsins að þessu sinni voru 78 talsins, en alls fengu 34 verkefni stuðning að upphæð 15 milljónir samtals. Þeim fækkaði þó um eitt áður en að úthlutun kom, því einn styrkurinn var afþakkaður þar sem forsendur fyrir verkefninu höfðu breyst og það var ekki lengur framkvæmanlegt. Aftur verður auglýst eftir styrkumsóknum í haust.
17. maí 2010