Norræn samvinna og margvísleg önnur verkefni fá styrki
Seinni styrkúthlutun Menningarráðs Vestfjarða á árinu 2010 fór fram við hátíðlega athöfn á Melrakkasetrinu í Súðavík þann 11. desember. Flutt var tónlist og haldin erindi, Melrakkasetrið kynnt og skoðað, auk þess sem styrkvilyrði voru afhent og að sjálfsögðu var boðið upp á kaffi og með því á eftir. Umsóknir sem komu til afgreiðslu það þessu sinni voru 78 talsins, en alls fengu 30 verkefni stuðning að upphæð 13.090.000.- samtals. Verkefnunum hefur þó fækkað um eitt, því einn styrkurinn var afþakkaður áður en til úthlutunar kom. Þrjú verkefni fengu milljón í styrk að þessu sinni. Tvö þeirra snúast um samstarf við stofnanir á landsvísu og út fyrir landsteinana og stórar norrænar samkomur á Vestfjörðum á næsta ári. Annars vegar var þar styrkur til Þjóðbúningafélags Vestfjarða til að standa fyrir norrænum handverkssumarbúðum á Þingeyri og hins vegar til Félags sagnaþula til að standa fyrir norrænu sagnaþingi, einnig á Þingeyri. Þriðja verkefnið sem fékk milljón að þessu sinni var Skrímslasetrið á Bíldudal fyrir vinnu að öðrum áfanga í sýningu setursins. Menningarráð Vestfjarða auglýsir aftur eftir styrkumsóknum snemma á nýju ári og eru allir hvattir til að fara tímanlega að huga að spennandi verkefnum og áætlanagerð.
13. desember 2010