10 verkefni keppa um Eyrarrósina
Metfjöldi umsókna var í ár um verðlaunin Eyrarrósina, viðurkenningu til framúrskarandi menningarverkefna á landsbyggðinni. Verðlaununum er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Fjörutíu og sex fjölbreytt verkefni víða um land sóttu um að þessu sinni, en sú nýbreytni er nú tekin upp á tíu ára afmæli Eyrarrósarinnar að í stað þriggja tilnefndra verkefna, er nú birtur Eyrarrósarlistinn 2014, listi yfir tíu verkefni sem möguleika eiga á því að hljóta Eyrarrósina í ár. Í þeim hópi eru vestfirsku verkefnin Skrímslasetrið á Bíldudal og Kómedíuleikhúsið.
09. janúar 2014