Hvatt til endurskoðunar á gjaldtöku hafna vegna fiskeldis
Vestfjarðastofa hefur um langt skeið unnið að verkefnum tengdum þróun og uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Hagsmunagæsla vegna leyfisveitinga og þeirrar umgjarðar sem atvinnugreininni er búin hefur verið þar rauður þráður. Að umgjörð atvinnugreinarinnar, farvegur leyfismála og eftirlits séu í lagi til að tryggja sjálfbærni atvinnugreinarinnar. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa um langa hríð kallað eftir að löggjöf um gjaldtöku hafna sé endurskoðuð og að auðlindagjöld sem fyrirtækin greiða fari til uppbyggingar innviða sveitarfélaganna. Hagsmunir alls samfélagsins snúast um að byggð sé upp atvinnugrein sem er í sátt við samfélag og umhverfi og að á öllum stigum séu leikreglur skýrar. Á fundi Samráðsnefndar um fiskeldi sem haldinn var föstudaginn 4. júní sl. lagði framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu ásamt Bjarna Jónssyni, fiskifræðingi fram bókun þar sem hvatt er til að núverandi gjaldaumhverfi hafna verði endurskoðað, að reglugerð fyrir Umhverfissjóð sjókvíaeldis verði endurskoðuð og sett verði reglugerð um fiskeldissjóð.
07. júní 2021