Hafbraut MÍ tekur til starfa næsta haust
Undirbúningur nýrrar námsbrautar við Menntaskólann á Ísafirði sem hefur hlotið nafnið hafbraut stendur enn yfir. Ákall hefur verið eftir námi á framhaldsskólastigi sem veitir ungu fólki sem hyggur á störf í fiskeldi og haftengdum greinum viðeigandi þekkingu og þjálfun. Í janúar á þessu ári undirritaði Menntaskólinn á Ísafirði samstarfssamning við fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish, Arnarlax og Háafell, auk Vestfjarðastofu, um nám sem kenndi grunnþætti slíkra starfa. Gengið var til samninga við Sigríði Gísladóttur, dýralækni, að taka að sér verkefnisstjórn við uppbyggingu brautarinnar í marsmánuði. Sigríður segir að þó ekki hafi gengið eins hratt að koma brautinni á laggirnar og vonast var til í upphafi gangi undirbúningur ágætlega og í mörg horn sé að líta við verk sem þetta.
15. desember 2023